ESB umsóknina hefði átt að bera upp ríkisráði

Í Lýðveldisstjórnarskránni frá 1944, 16 grein er kveðið skýrt á um að "lög og mikilvægar  stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði".

Ég var í ríkisstjórn eins og alþjóð veit þegar hin umdeilda beiðni um inngöngu í Evrópusambandið var samþykkt á Alþingi 16. júní 2009 með margskonar fyrirvörum.

Deila má um hversu lýðræðisleg sú ákvörðun var. Forsætisráðherra tók einstaka þingmenn í samstarfsflokknum á "teppið" og óð á milli þeirra undir atkvæðagreiðslunni eins og frægt var.

Fleira mætti rifja upp um "lýðræðið" í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar 16.júní 2009 sem ekki er til eftirbreytni 

Ég minnist þess ekki að ástæða hafi verið talin til þess, að bera þá "stjórnarráðstöfun", sem umsóknin var upp í ríkisráði.

Hún var ekki talin svo stór ákvörðun að þess þyrfti. Ég tel hinsvegar að það hefði átt að gerast

Ef minni mitt brestur ekki var  einmitt að því fundið við forsætisráðherra á sínum tíma.

Nú þykir sömu þingmönnum og þá sátu í ríkisstjórn  að staðfesting á andláti umsóknarinnar sé meiriháttar stjórnarráðstöfun.

Umsóknin var á sínum tíma og er enn skilyrt af hálfu Alþingis sem bæði ríkisstjórnin og samninganefndin var bundin af. 

Evrópusambandið tekur hinsvegar ekki við skilyrtri umsókn og lýsti því strax að Ísland yrði að yfirtaka öll lög og reglur Evrópusambandsins.

Í því er fólgin ósamrýmanleg þversögn, sem þeir er báru ábyrgð á umsókninni neituðu að horfast í augu við. 

 Nú er fullljóst að ekki er hægt að halda áfram með umsóknina og inngönguferlið nema falla frá þeim skilyrðum sem Alþingi setti ríkisstjórninni.

Jafnframt liggur fyrir að núverandi stjórnvöld eru andsnúin inngöngu í Evrópusambandið.

Þetta er í raun sú staða sem utanríkisráðherra hefur tilkynnt Evrópusambandinu bréflega og því sé að hans mati Ísland ekki lengur umsóknarríki þó svo þar hefði þurft að kveða skýrar að orði. Samskonar tilkynningu á ríkisstjórnin að senda  Alþingi formlega með staðfestingartillögu eða þingsályktun um refjalausa afturköllun umsóknarinnar, en það væri bæði lýðræðilegast og réttast. Í framhaldi af því væri svo ákvörðun alþingis send ESB.

Þyki staðfesting utanríkisráðherra á andláti ESB umsóknarinnar og greftrun hennar meiriháttar stjórnarráðstöfun nú getur ráðherra borið hana upp á næsta ríkisráðsfundi og ég mæli með því að svo sé gert.

(Stjórnarskráin 16 gr. "Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti. Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði").

 Ef þingmenn hafa sjálfir ekki burði til að leggja fram þingmál geta þeir snúið sér til forsetans samkvæmt 25. grein:

" Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta".

Svo einfalt er það.

 

 


Bloggfærslur 25. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband