Jórvíkurferð 1. janúar 1992

Mér er minnisstæður 1. janúar, nýársdagur 1992, en  þann vetur dvöldum við hjónin og þrjú yngri börnin í Edinborg í Skotlandi: Páll átta ára, Katrín níu ára og Laufey Erla fjórtán ára. Yfir jól og áramót bættust tvö þeirra eldri, Björg og Ásgeir í hópinn.

Á gamlárskvöld var okkur boðið í mat til kínversks vinafólks okkar, en sá málsverður var ævintýralegur, eftirminnilegur og góður.  Þau kínversku höfðu aldrei séð  svona stóra fjölskyldu eða fengið svo margt  fólk í mat í einu. Við höfðum heldur aldrei fengið svona ekta heimagerða kínverska hátíðarmáltíð áður . Okkur var þó ekki til langrar setu boðið því árla næsta morguns átti að leggja í langferð.

Snemma á nýársmorgun var stefnan svo tekin á lestarferð til Jórvíkur, York í þriggja daga heimsókn til þeirrar fornu norrænu og engilsaxnesku borgar. Ásgeir og Björg höfðu komið til okkar um jólin en Laufey, Katrín og Páll fylgdu okkur í Edinborgardvölinni.  Ferðin byrjaði með því að erfiðlega gekk að fá leigubíl svo snemma morguns, þótt hann hefði verið pantaður deginum áður. Þegar bíllinn  loksins kom og við nærri búin að missa af lestinni, var bílstjórinn mjög úrillur, grauttimbraður og hafði mörg orð um hversu ómannúðlegt það væri að vera kallaður út svona snemma morguns á nýársdag. Vel að merkja þá eru bæði 1. og 2. í nýári frídagar í Skotlandi en á Englandi er aðeins nýársdagur frídagur.

Þegar til York var komið drifum við okkur fyrst á gistiheimili sem við höfðum pantað en það voru þrjú herbergi á einskonar herragarði. Í tveimur herbergjanna  voru stór rúm  og annað með tjöldum á allar hliðar og himni yfir með kögri, plussi og fínheitum. Þetta eru stór ensk rúm sem við sjáum oft í kvikmyndum úr köstulum eða heimilum heldra fólks í enskum bíómyndum.

 Katrín kallaði þetta drottningarrúm  eða prinsessuherbergi og vildi  eindregið  fá að sofa í „himnasænginni“. Annars áttu þau minnstu, Katrín og Páll  að sofa inni hjá okkur gömlu. Niðurstaðan varð hinsvegar sú að við hjónin sváfum í hinu hefðbundna tvíbreiða rúmi.  Björg, Laufey og Katrín, prinsessurnar þrjár sváfu saman í himnasænginni eða drottningarrúminu, en Ásgeir og Páll á einföldum bekkjum í minnsta herberginu.

Gistingin sjálf var öllum ævintýri. Næstu tveir dagar voru nýttir til að skoða víkinga- og sögusafnið í York þar sem Magnús Magnússon var þulur. Var sú skoðunarferð mikil upplifun og varð  ein af góðum kveikjum sem við nýttum síðar í uppbyggingu ferðaþjónustunámsins á Hólum í Hjaltadal.

York er söguborg  frá tímum norrænna manna á Englandi með frægri dómkirkju, verslunum og söfnum.

Við fórum í langan göngutúr á Hadríanmúrnum sem Rómverjar byggðu á sínum tíma til að halda skrælingjum og villimönnum úr norðri, þ.e. Skotum, úti frá hinu rómanska ríki.

Eftirminnilegast var þó pyntingasafnið þar sem settar voru á svið með leikbrúðum og pyntingatækjum allar mögulegar pyntingar á föngum frá fyrri öldum. Var okkur sagt við innganginn að sýningin hentaði líka börnum en okkur leist ekki á blikuna þegar inn kom. Ekki var hægt að snúa við eða stytta sér leið og því farið hratt í gegn og reynt að halda fyrir augu yngstu barnanna, undir ópum kvenna og barna og öskrum karla sem var verið að teygja eða lima í sundur eða þá  hópur nagdýra að hakka í sig.

Á einum stað var María Stuart, fyrrum drottning Skota hálshöggvin á fimm mínútna fresti.

Hugmyndin að þessari sögusýningu  var síðar útfærð með allt öðrum og mýkri  hætti í sérstöku túristaprógrammi á Hólum sem gekk undir nafninu „Draugaröltið“

York er óskaplega falleg borg og okkur mjög náin.  

Þrátt fyrir mikinn sprett í söfn og skoðun fornminja  þessa þrjá daga fann Laufey aðeins tíma til að kíkja í búðir, en hún var þá á unglingsaldri og lét ekki hlunnfara sig um slíkt á svona ferðalögum. Öllu var því til skila haldið.  Ævintýraferð sem okkur er öllum  mjög eftirminnileg  frá fyrstu dögum  í janúar 1992.


Bloggfærslur 1. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband