Sigurður Blöndal skógræktarstjóri- Minning

(Mynd frá skogur.is)

 

 

 

 

 

 

 

Þau dafna blessuð trén, sem daga’ og nætur

Um djúpar rætur, um djúpar rætur –

Þau dafna blessuð trén, sem daga’ og nætur

:|: um djúpar rætur teyga jarðar mjöð :|:

og kenna sér aldrei meins en eru kennd og glöð.

Ég held að mörgum verði sem mér ofarlega í huga „þjóðsöngur“ skógarfólks þegar við minnumst skógarhöfðingjans og mannvinarins Sigurðar Blöndal. Hve oft höfum við ekki glaðst á góðri stundu í hópi skógræktarfólks þar sem gleðimaðurinn Sigurður Blöndal leiðir fjöldasöng - Skógarmanna skál - við texta Þorsteins Valdimarssonar?

Baráttumaður

Sigurður Blöndal nam skógrækt í Noregi og lauk háskólaprófi frá Landbúnaðaðarháskólanum að Ási. Sigurður bast sterkum  böndum við norskt skógræktarfólk og norskt samfélag. Gagnkvæmar heimsóknir skógræktarfólks milli landanna nutu sérstaks stuðnings og hvatningar Sigurðar. Ég minnist þess frá skólaárum mínum í Noregi að Sigurður Blöndal naut þar mikillar virðingar. En það var ekki aðeins hið öfluga skógræktarstarf Norðmanna sem heillaði Sigurð, heldur og ekki síður hin sjálfstæða norska þjóð. Maðal annars tók hann virkan þátt í baráttunni gegn inngöngu Noregs í Efnahagsbandalagið á árunum 1970 - 72, sem lauk með þjóðaratkvæðagreiðslu 25. sept. 1972, þar sem Norðmenn höfnuðu aðild.

Handtekinn af norskri herlögreglu

Ég hitti fyrir nokkrum árum skógarvörð í Norður Noregi sem  sagði mér frá því að Sigurður Blöndal hefði komið þar og tekið þátt í baráttufundum fyrir sjálfstæði Noregs. Þeir hefðu farið að skoða skóga norska ríkisins í nágrenninu. Þá birtist skyndilega norsk herlögregla sem handtók Sigurð og færði til yfirheyrslu. Þeir höfðu þá farið inn á skógræktarsvæði sem norski herinn hafði sérstakan aðgang að. Taldi þessi norðurnorski skógarvörður ekki vafa á því að  stjórnvöld hefðu fylgst vandlega með hverju skrefi Sigurðar Blöndal í Noregi. Hann hefði þótt aflmikill  í baráttunni gegn inngöngu Noregs í Efnahagsbandalagið sem kallaði á sérstakt eftirlit. Það fundu allir þegar Sigurður beitti sér, sama hver vettvangurinn var.

Á Hólum í Hjaltadal

Í skólastjóratíð minni á Hólum í Hjaltadal kom Sigurður Blöndal skógræktarstjóri í heimsókn yfirleitt tvisvar á ári, vor og haust. Var hann þá með fyrirlestra og kennslu við skólann jafnramt því  að líta eftir skógræktarstarfinu í héraðinu og hvetja fólk til dáða. Skógrækt ríkisins rak sérstaka skógræktarstöð í Varmahlíð á þessum árum en einnig var skógræktin á Hólum  samstarfsverkefni Hólaskóla og Skógræktarfélags Skagfirðinga. Gisti Sigurður þá gjarnan heima hjá okkur Ingibjörgu nokkra sólarhringa meðan á heimsókninni stóð. Voru það góðar stundir. Á haustin kom hann gjarnan heim að Hólum í nóvember til að merkja tré sem skyldu höggvast og selja sem jólatré. Gátu þau skipt hundruðum trén sem voru höggvin hvert haust og rann andvirðið til skógræktarstarfsins í héraðinu.

Heggur sá er hlífa skal

Skáldið og kennarinn Rósberg G. Snædal bjó þá á Hólum og kenndi við Grunnskólann allt til er hann lést. Rósberg og Sigurður voru miklir mátar og var oft glatt á hjalla í matsalnum þegar þeir félagar hittust. Sigurður heimtaði vísu af Rósberg í hvert skipti er hann kom og vildi gjarna hafa þær kersknar með broddi. Þurfti ekki mjög að hvetja Rósberg í þeim efnum. Þessar tvær læt ég fylgja en þær voru báðar ortar að hausti er Sigurður kom að fella trén sem höfðu náð jólatrjáastærð. Hlíðin við Hóla þar sem var höggvið heitir Raftahlíð. Fannst Rósberg lítið til um framgöngu skógræktarstjóra að höggva litlu trén sem höfðu baslast við að vaxa í óblíðri veðráttu Norðurlands og taldi það rýra Hóla:

Austan veri í erg og gríð.

eggjar ferleg tólin.

Rætur sker í Raftahlíð,

rúinerar stólinn.

Og næsta haust var vísa Rósbergs litlu mýkri:

Hann er plága í Hjaltadal

Hérna brá hann ljánum

Heggur sá er hlífa skal

Hóla- smáu -trjánum.

Að sjálfsögðu var samtímis unnið þar nauðsynlegt grisjunarstarf.

Leiðtogi sem hvatti og leiddi

Sigurður Blöndal var stórglæsilegur maður og höfðinglegur í öllu fasi. Hann var leiðtogi sem hlustað var á og fylgt. Hann hafði einstakt lag á að hrífa fólk með sér. Með augum barnsins, náttúrufræðingsins og mannvinarins sá hann oft og hlúði að mörgu því sem aðrir gengu hjá. Nú hafa þeir hist, kunningjarnir Rósberg G. Snædal rithöfundur og vísnaskáld og lífskúnstnerinn, húmoristinn og leiðtoginn Sigurður Blöndal skógræktarstjóri. Þeir skiptast örugglega á léttum kersknisvísum.

Menningin vex í lundi nýrra skóga

Sigurður Blöndal var fæddur og uppalinn á tímum grósku í félagshyggju og framfaraþrá sem leiddi þjóðina til sjálfstæðs lýðveldis. Menn eins og Sigurður Blöndal endurvöktu reisn íslensku þjóðarinnar og sýndu í verki hverju hægt er að ná með skýrri framtíðarsýn. Litlu trén sem plantað var á síðari hluta síðustu aldar eru orðin að þéttum skógi og skógrækt er orðin framtíðaratvinnugrein í viðarframleiðslu. Sigurður Blöndal er einn af merkustu leiðtogum þjóðarinnar á síðustu öld og hefur reist sér minnisvarða sem mun vitna um starfsorku, þekkingu hans og leiðtogahæfileika um ókomin ár og aldir. Draumsýn í Aldamótaljóði Hannesar Hafstein rætist í verkum Sigurðar Blöndal:

Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa,
sveitirnar fyllast, akrar hylja móa,
brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,
menningin vex í lundi nýrra skóga.

Við Ingibjörg þökkum Sigurði samferðina, vináttu og góðar stundir á liðnum árum og áratugum. Guðrúnu og fjölskyldunni allri sendum við samúðarkveðjur. Blessuð sé minning höfðingjans Sigurðar Blöndal skógræktarstjóra. Guð gefi landi voru marga slíka.

Jón Bjarnason


Bloggfærslur 6. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband