Séra Baldur í Vatnsfirði kvaddur

Séra Baldur Vilhelmsson fyrrverandi prestur og prófastur í Vatnsfirði er allur. Útför hans var gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag. Útfararræða Biskups Íslands, Agnesar Sigurðardóttur, geislaði af hlýju og virðingu fyrir þessum einstæða höfðingja sem þjónaði allan sinn starfsferil sem sóknarprestur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp allt frá árinu 1956. Séra Baldur var einlægur baráttumaður fyrir jafnrétti og kærleika hér í jarðríki. Himnafaðirinn myndi sjá um þá þætti þegar yfir um væri komið.

Ég hafði kynnst séra Baldri í skólastjóratíð minni á Hólum í Hjaltadal er hann kom þar á prestastefnur. En einnig er mér minnistæð heimsókn þeirra félaga, Baldurs, Einars Laxness og séra Sigurjóns Einarssonar en þeir tóku saman góðar ferðarispur um landið og voru aufúsugestir. Síðar var það fastur liður að koma við í Vatnsfirði er ekið var um Vestfirði.

Séra Baldur var fæddur á Hofsósi og unni þeim stað nokkuð til jafns við Vatnsfjörð. Séra Baldur var þjóðsagnarpersóna í lifanda lífi og fjöldi sagna og tilsvara eru eignaðar honum. Sameiginlegt þeim öllum er frumleiki og leiftrandi fyndni en jafnframt þrungnar kærleik til þess samfélags sem hann unni, vann með og þjónaði. 

"Veistu hver er stærsta bylting Íslandssögunnar?" spurði hann mig eitt sinn. Ég hváði. "Jú" sagði hann, "ekkert hafði eins mikla þýðingu fyrir landsmenn eins og gúmmískórnir". Séra Baldri voru þá hugstæðar egghvassar og  grýttar heiðarnar milli bæja, héraða og landshluta en  þær  voru gjarnan mældar í fjölda skópara, hvort sem voru það skinnskór, roðskór eða hveljuskór.

Pólitíkin var séra Baldri ávallt mjög hugleikin en hann var afar róttækur í hugsun og mjög ákveðinn í orðum.

 Ég minnist með þakklæti hvatningarsímtala hans til þingmannsins síns og ógleymanlegrar leiðsagnar um Vatnsfjörð og nágrenni.

Séra Baldur gerði sér ekki alltaf lífsins stundir auðveldar frekar en margir aðrir andans jöfrar.

En hann var sannur vinur vina sinna og hreinskiptinn í allri orðræðu.

"Enginn kemur í hans stað en lögmálinu lútum við öll," segir Kjartan Ólafsson fyrirverandi alþingismaður og félagi Baldurs til margra ára.

Blessuð sé minning um ógleymanlegan mann, höfðingjann séra Baldur Vilhelmsson prófast í Vatnsfirði við Djúp.

Minningargrein um sr. Baldur Vilhelmsson 

 


Bloggfærslur 3. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband