Hvar er bankinn minn ?

Ákvörðun Arionbanka að loka fyrir alla starfsemi sína á Vestfjörðum hlýtur að vekja spurningar. Stóru bankarnir virðast komast upp með að loka á heilu landshlutana.

Lokun útibúa og þjónustustofnana í litlum samfélögum er andsamfélagsleg aðgerð og ekkert einkamál stofnunar eða fyrirtækis sem starfar með ríkisábyrgð á landsvísu.

Gildir einu hvort það er bankaútibú eða þjónusta sýslumannsembætta. 

Í starfsleyfum bankanna er kveðið á um þjónustukvaðir og samfélagsskyldur sem bæði neytendasamtök eða eftirlitsstofnanir mættu  fylgja eftir.  Færri og sterk­ari úti­bú ! 

Að sjálfsögðu þarf banki að gæta fyllstu hagkvæmni í rekstri og vafalaust eru stóru bankarnir hér allt of stórir miðað við íslenskar aðstæður.

Hinsvegar eru það engin rök fyrir lokun þjónustuútibús, að  hluti viðskiptavina Arionbanka á Hólmavík eigi lögheimili utan sveitarfélagsins og það réttlæti lokun útibúsins eins og bankastjórinn heldur fram.  Arion banki lokar á Hólmavík 

Samfélagsábyrgð

Sú staðreynd segir  þvert á móti að með nýjustu fjarskiptatækni er hægt að byggja upp ákveðna starfsemi á landsvísu óháð staðsetningu. Jafnframt getur verið að viðskiptavinir haldi tryggð við byggðarlagið og vilji einmitt styrkja það með því að skipta við útibúið á staðnum.

Kaldar kveðjur frá Arion banka  

 Arionbanki hlýtur að skulda íbúum Vestfjarða og þar með landsmönnum öllum skýringu  á því, hversvegna ekkert útibú er frá bankanum í þessum landshluta. 

Ef  stóru bankarnir þrír, Arionbanki, Landsbankinn og Íslandsbanki eru búnir að skipta landinu á milli sín  eins og virðist vera, eru lítil rök fyrir því að vera að reka fleiri en einn banka í landinu.

Bankarnir eru með ríkisábyrgð 

Rétt er að vekja athygli á að bankarnir eru að hluta í ríkiseigu með ríkisábyrgð á meginhluta innlána sinna, sem þeir  byggja jú starfsemi sína á.

Arður þeirra nú  byggist ekki hvað síst á því, að "nýju" bankarnir  fengu innlendar kröfur á viðskiftaaðila sína með miklum afföllum í hruninu, kröfur sem reynast svo miklu meira virði þegar frá líður.

Mismuninn, hagnaðinn,  borgar svo almenningur, húseigendur og lítil fyrirtæki líka á Vestfjörðum. Bankinn tútnar út  umfram það sem áætlað var og safnar óvæntum hagnaði sem viðskiftavinirnir og samfélagið borgar.

Þjónustuskyldur  

 Arionbanki er því ekkert eyland sem getur hagað sér að vild og bankastjórar ættu að gæta hógværðar í framkomu sinni  gagnvart landsmönnum.

 Fyrirvaralaus lokun útibúa og uppsagnir starfsfólks  eins og á Hólmavík  minna óneitanlega á orðræðuna og hroka fjármálastofnana fyrir hrun.

Það að loka á alla starfsemi í heilum landshlutum hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir stjórnvöld og eftirlitsstofnanir eins og Samkeppniseftirlitið.

 

 

 


Bloggfærslur 27. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband