Þið getið bara sótt þjónustuna suður !

 Arionbanki tilkynnti fyrirvaralaust lokun útibús síns á Hólmavík og benti viðskiptavinum sínum á að sækja þjónustuna suður.

Með lokuninni hverfa störf þriggja fjölskyldna úr þessu litla en blómlega bæjarfélagi og þjónustan skert.  Allt sem heitir samfélagsábyrgð  Arionbanka er varpað fyrir róða, græðgin ein skal ráða för.  Kaldar kveðjur frá Arion banka. :

„Þetta eru kaldar kveðjur og óviðbúnar aðgerðir frá banka sem sýnir stórfelldar hagnaðartölur og ofurlaun æðstu stjórnenda. Í afkomutilkynningu frá Arionbanka frá 27. ágúst 2014 kemur fram að hagnaður bankans á fyrri hluta ársins nemi 17,4 milljörðum króna sem er veruleg aukning frá árinu á undan“  segir sveitarstjórinn á Hólmavík.  Fréttatilkynning frá Strandabyggð vegna lokunar útibús Arionbanka á Hólmavík:

Engin þjónusta Arionbanka á öllum Vestfjörðum 

 Arionbanki telur sig geta fetað athugasemdalaust í fótspor ríkisstjórnarinnar, sem nýlega lagði niður sýslumannsembætti Strandamanna á Hólmavík, þvert á gefin loforð þingmanna kjördæmisins sem nú sitja í ríkisstjórn.

Það er svo merkilegt, að þrátt fyrir aukna tækni í fjarskiptum sem eiga að getað virkað í báðar áttir, er ákvörðun stjórnvalda jafnt sem þjónustustofnanna og stórra einkafyrirtækja að byggja allt upp miðlægt á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að nýta tæknina til að styrkja þjónustuna og störfin á landsbyggðinni.

Sem betur fer er Sparisjóður Strandamanna á staðnum. En hann  stóð af sér bankahrunið og hefur ekki þurft að velta milljörðum yfir á landsmenn í afskriftum eins og forveri Arionbanka gerði, en bankinn græðir nú á.

Hvað með Samkeppniseftirlitið og bankana?

Þrátt fyrir fögur fyrirheit standa stjórnvöld viljalaus með tærnar á ráðherrunum upp í loftið, flúnum til  fjarlægra heimshorna, hvort heldur til Brasilíu, Chile eða Japan og  láta sig engu varða um, hvað gerist í litlum samfélögum á Fróni.

Hvað með Samkeppniseftirlitið, ber því ekki að fylgjast með því hvernig einokunarfyrirtæki eins og stóru bankarnir sinna þjónustu og jafnréttisskyldum við alla landsmenn?.

Bankarnir  fá jú starfsleyfi á landsvísu með réttindum og skyldum sem því tilheyrir.  Nú verður ekkert útibú Arionbanka á öllum Vestfjörðum.

Úr því að hægt var að kæra Mjólkursamsöluna fyrir að halda uppi sama verði á mjólk til söluaðila hvar sem er á landinu og greiða bændum sama verð óháð búsetu, hvernig væri þá að Samkeppniseftirlitið tæki á starfsemi og þjónustu stóru einokunarbankanna gagnvart fyrirtækjum og íbúum landsbyggðarinnar.


Bloggfærslur 23. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband