Sjálfstæðisflokkur í úlfakreppu

Bjarni Benediktsson hefur í hótunum við Framsóknarflokkinn en er sjálfur í mjög veikri stöðu og getur með tali sínu einangrað Sjálfstæðisflokkinn í íslenskri pólitík næstu árin.

Alþingi er kosið til fjögra ára í senn. Einungis brýnar breytingar á stjórnarskrá, langvarandi stjórnarkreppa eða pólitískt neyðarástand geta heimilað forseta Íslands, forsætisráðherra og Alþingi að rjúfa þing og boða til kosninga innan kjörtímabilsins.

Forsætisráðherra fer alls ekki einn með þingrofsheimildina heldur verður forseti lýðveldisins að samþykkja hana.

En áður en forseti getur samþykkt tillögu um þingrof verður hann að ganga úr skugga um að réttar forsendur samkvæmt stjórnarskrá séu fyrir hendi:

1. Að pólitískt ástand sé með þeim hætti innan þingsins að ekki sé hægt að mynda starfhæfa ríkisstjórn sem njóti stuðnings eða hlutleysis meirihluta alþingismanna.

2. Þá þarf forseti einnig að kanna möguleika á myndun utanþingsstjórnar til að fara með stjórnun landsins fram að næstu kosningum.

Samhljóða vilji aþingismanna um þingrof skiptir einnig máli við ákvörðun forsetans.

Þingrofsheimildin er ekkert leikfang

Stjórnarskráin og þingrofsheimildin er því ekkert leikfang eða "jójó" sem hægt er að spila á eftir geðþótta nokkurra mannna. Þingmenn eru kosnir til fjögra ára og það loforð gáfu þeir kjósendum sínum fyrir síðustu alþingiskosningar.

Hvað sem öðrum finnst nýtur núverandi ríkisstjórn  meirihlutastuðnings Alþingis. Hún stóð af sér vantrausttillögu seint sl. vor.

Unnið er samkvæmt stefnuskrá og stjórnarsáttmála sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur gerðu með sér og samþykktu eftir kosningarnar 2013. 

Framsóknarflokkurinn leggur nú áherslu á að ljúka þeim meginverkefnum sem hann telur sig hafa lofað fyrir síðustu alþingiskosningar og sátt var um við myndun ríkisstjórnarinnar. Formaður flokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur undirstrikað að ríkisstjórnin beri ábyrgð á að þau loforð verði efnd áður en boðað er til kosninga og kjörtímabilið er útrunnið.

Úlfakreppa Sjálfstæðisflokksins

Formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson telur sig hinsvegar þurfa að efna óskýra yfirlýsingu sem hann persónulega gaf í fljótfærni í tröppum Alþingishússins í vor um haustkosningar frekar en að standa við málefnasamning ríkisstjórnarinnar.

En formaður Sjálfstæðisflokksins er í mikilli kreppu.  Forseti Íslands getur ekki samþykkt þingrofsheimild nema til þess sé a.m.k. meirihluti Alþingis og helst samstaða allra þingmanna.

Framsókn með öll tromp á hendi

Neiti Framsókn þingrofinu mun forsætisráðherra þeirra ekki bera upp slíka tillögu. Þá verður Sjáfstæðisflokkurinn að slíta stjórnarsamstarfinu og leita á náðir stjórnarandstöðunnar með myndun nýrrar stjórnar og nýs forsætisráðherra sem styðji þingrof.

Að slíta ríkistjórnarsamstarfi án málefnaágreinings er ekki stórmannlegt fyrir stærsta stjórnmálaflokk landsins.

Sjálfstæðisflokkurinn gæti einangrast 

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa með yfirlýsingu hafnað öllu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. 

Ólíklegt er því að þeir leysi formann Sjálfstæðisflokksins úr þeirri snöru sem hann er kominn í enda mikil niðurlæging fyrir formann Sjálfstæðisflokksins að fara fram á slíkt.

Með því að slíta stjórnarsamstarfinu nú væri Sjálfstæðisflokkurinn að mála sig út í horn stjórnun landsmála næstu árin. Hálft ár til eða frá með kosningar skipta ekki miklu máli fyrir núverandi stjórnarandstöðuflokka og Framsóknarflokkurinn stendur þeim hvort eð nær t.d. í velferðarmálunum, bankamálum og gegn einkavæðingu almannaþjónustunnar.

Segja má því að Framsókn hafi öll tromp á hendi í þinginu þegar það kemur saman.

Fyrir alla flokka aðra en Pírata er auk þess vænlegra að bíða vorsins með kosningar eins og kjörtímabilið segir til um.

  


Hernaðarumsvif Bandaríkjanna á Íslandi

Nýundirrituð samstarfsyfirlýsing utanríkisráðherra Íslands og hermálayfirvalda í Bandríkjunum byggir á hinum umdeilda varnarsamningi við Bandaríkin frá 1951.

Að veita öðrum ríkjum rétt til hernaðarumsvifa gangvart öðrum þjóðum af landi sínu felur í sér ákveðið fullveldisframsal. 

Við sem börðumst gegn hersetu Bandaríkjanna hér á landi fögnuðum því þegar bandaríski herinn hljópst loks á brott að eigin frumkvæði. Við vonuðumst eftir því, að þar með væri Ísland laust við þennan smánarsamning um hernaðarumsvif Bandaríkjanna hér á landi frá 1951. 

Samstarfsyfirlýsing íslenska utanríkisráðherrans felur í sér víðtækari óskilgreindar heimildir til Bandaríkjahers en áður og veldur okkur herstöðvarandstæðingum miklum vonbrigðum.

Ísland er friðelskandi þjóð, boðberi sátta milli þjóða og á að standa utan hernaðarbandalaga og viðskiftastríða gangvart öðrum löndum. Gildir þar einu að mínum mati hvort um er að ræða  Bandaríkin, Nató eða Evrópusambandið.  Við eigum að halda okkar eigin sjálfstæði til ákvarðana í samskiptum við aðrar þjóðir á okkar forsendum.

 Aðdáendur "gamla kalda stríðsins" gleðjast yfir auknum hernaðarumsvifum Bandaríkjanna hér á landi.

Björn Bjarnason fyrrum þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins víkur að því á heimasíðu sinni í dag  og þá jafnframt að viðtali við mig um þessi mál í ríkisútvarpinu í gær. 

Veltir Björn því fyrir sér, hvort ég hafi gangrýnt hernaðarumsvif Bandraíkjahers hér á landi í nafni Heimssýnar, sem ég er formaður fyrir.

Það er alveg rétt hjá Birni að Heimssýn eru  þverpólit ísk afmörkuð samtök sjálfstæðissinna í Evrópumálum. 

Ég var ekki að tala fyrir hönd Heimssýnar við ruv um þetta mál enda hafa samtökin  ekki tekið þennan samning fyrir á fundi sínum né heldur er það á sviði þeirra samtaka.

 Það er í sjálfu sér fjölmiðilsins að ákveða kynningu á viðmælendum sínum svo lengi sem farið er með rétt mál.

 Í sjónvarpsfréttum  í gær var ég kynntur sem sérstakur áhugamaður um fullveldi Íslands og fyrrverandi alþingismaður og ráðherra  en í útvarpsfréttum var þess getið að ég væri formaður Heimssýnar.

Hinsvegar var hvergi  á það minnst að ég talaði fyrir hönd samtökin Heimssýn um þennan varnarsamning við Bandaríkin enda var það ekki svo. 

Persónulegar skoðanir mínar og áherslur í sjálfstæðismálum Íslands eru hinsvegar öllum vel kunnar og fyrir þær tala ég.

Þar ræður engin hentistefna í fullveldismálum ferð. 

   


Utanríkisráðherra veldur vonbrigðum - styður viðskiftastríð ESB gegn Rússum

 Margir væntu þess að nýr utanríkisráðherra myndi sýna meira sjálfstæði gagnvart ESB en fyrirrennari hennar.

Stuðningur við refsiaðgerðir ESB gegn Rússum var mjög umdeilt en það kallaði á viðskiftabann þeirra á mikilvægan útflutning  á fiski frá Íslandi.  Það innflutningsbann hefur reynst Íslendingu þungt og áratuga útflutning- og markaðssamband við Rússa er í uppnámi.

 ESB hefur ákveðið að beita Rússa áfram refsiaðgerðum vegna Úkraínustríðsins. ESB fram­leng­ir refsiaðgerðir gegn Rúss­um

 Sendlarnir í utanríkisráðuneytinu

Lilja Dögg Alfreðsdóttir nýr ráðherra hefur ekki haft bein í nefi til að standa á sjálfstæðum ákvarðanarétti Íslendinga  gagnvart ESB frekar en fyrirrennari hennar.

Fylgir hún ESB eftir þótt það stríði gegn fullveldisrétti og hagsmunum Íslendinga.

Undirlægjuhátturinn gagnvart ESB í utanríkisráðuneytinu virðist gróinn þar fastur.

Breytir engu þótt nýir ráðherrar setjist þar inn. Það virðist eins og lögmál að nýir ráðherrar verði strax eins og póstberar embættisvaldsins sem þar hefur hreiðrað um síg í utanríkisráðuneytinu til áratuga. 


Vegabréf N 1 - áróður fyrir sælgætisáti barna

Á ferðum um landið að sumarlagi er gjarna komið við á stöðvum N 1 til að taka eldsneyti eða fá sér skyndibita. Margt er gott að segja um þjónustu N - eins.

Börn vilja gjarna fá sitt úr svona ferðum. Auðvelt er  fyrir óprúttna aulýsendur að ná til barna og finna inn á veikleika þeirra eldri með börn í langferðum.

Eitt slíkt er Vegabréf N eins fyrir börn  þar sem hver fær stimpil og verðlaun á næsta N eins- stað ef verslað er yfir 300 krónur.  

Hugmyndin er góð, ferðin fær auka tilgang hjá börnum að fá stimpil á næsta N einum.

Vegabréfið í ár er skreytt myndum tengt Evrópukeppninni í fótbolta, íslensku fánalitunum og knattspyrnuhetjum.  Þarna væri gullið tækifæri fyrir þetta stórfyritæki til að koma inn i barnaleikinn á uppbyggjandi og heilbrigðan hátt. En því miður bregst fyrirtækið alveg.  Allir "vinningarnir" eru sælgæti: 1. Chupa Chups sleikjó, 2.  Coke zero 250 ml. 3. Corny 25 g, 4. kókómjólk 250ml. 5. Nói trítlar, 6. Capri Sun 200ml. 7 prins pólo 35 g, 8 klaki lime 500 ml..

Ef barnið hefur þegið alla þessa sælgætisbita getur það með nafni skilað vegbréfinu inn og tekið þátt í happadrætti.

Nú er aðstandendum og börnum í sjálfsvald sett hvort tekið sé þátt í svona leik, en þar sem hann er frír og gefur möguleika á sætindum í munninn er hann ótrúlega lokkandi. Flestum okkar finnst gott að fá sætt í munninn og læt ég freistast fyrir barnabörnin

Þessi skilaboð og markaðsferð N 1 gengur hinsvegar þvert gegn allri umræðu um lýðheilsu, hollustu eða uppeldi barna. Ein helsti þjóðarsjúkdómur Íslendinga, einkum barna er of mikið sykurát í öllum formum og offita er vaxandi vandamál. 

Stórfyrirtæki eins og N 1 getur ekki á svona óprúttinn hátt tekið þátt í að hvetja svo markvisst til að auka á þennan einn stærsta heilsuvanda íslenskra barna.

Ég skora á fyrirtækið N 1 að breyta um stefnu gangvart börnum á ferðalögum og hafa eitthvert uppbyggjandi, gleðjandi og skaðlaust fyrir börn,t.d. lítil leikföng sem verðlaun í Vegbréfi sínu sem hinir eldri geta svo með góðri samvisku og gleði deilt út á ferðum um landið .

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband