Klókindi Össurar

Nýr framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar Kristján Guy Burgess var sérlegur aðstoðarmaður Össurar sem utanríkisráðherra í síðustu ríkisstjórn og sálufélagi í ESB- málum.

Fyrir nokkru var Stefán Haukur Jóhannesson formaður samninganefndarinnar um inngöngu í ESB skipaður ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu. Þessir menn tveir skipuðu lykilstöður og voru hægri og vinstri hönd Össurar sem utanríkisráðherra og eru afar kappsamir í að leiða Ísland inn í Evrópusambandið.

Össur veit að eina von Samfylkingarinnar til að ná sér aftur á strik er að koma inngöngu í Evrópusambandið aftur á dagskrá og mikilvægt að halda öllu opnu í þeim efnum.

Snillingar í bréfaskrifum á tungumáli Evrópusambandsins

ESB aðild var jú eina mál Samfylkingarinnar og það styttist í næstu kosningar.

Þessir þrír menn saman eru mestu snillingar landsins í að skrifa bréf á tungumáli Evrópusambandsins eins og alkunna er og einlægir ESB-sambandssinnar.

Kristján Guy Burgess er klár og þekkilegur maður og vafalaust fengur fyrir Samfylkinguna að fá hann sem framkvæmdastjóra.

Ráðning Kristjáns segir manni einnig að Össur styrkir stöðu sína á ný á hinu pólitíska sviði og hefur komið ár sinni vel fyrir borð. Krafan um inngöngu Íslands í Evrópusambandið getur orðið eitt aðalkosningamálið 2017. 

 Fyrir okkur andstæðinga ESB aðildar skiptir máli að umsóknin frá 2009 verði formlega og ótvírætt afturkölluð án alls skrúðmælgis með tungutaki sem allir aðilar skilja.

 


Svartur sjór af makríl í íslenskri lögsögu

Hátt í 40% alls makrílstofnsins í Norðaustur- Atlantshafi er innan íslenskrar fiskveiðilögsögu eð um 3 milljónir tonna. Þetta sýndu sameiginlegar mælingar Íslendinga Norðmanna, Færeyinga og Grænlendinga í leiðangri sem farinn var 1. júlí til 10 ágúst s.l. (Rúm­lega þriðjung­ur mak­ríls­ins í ís­lenskri lög­sögu)

Makrílveiðarnar skiptu sköpum fyrir  atvinnu og gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.

Ég minnist þess sem ráðherra að á árunum 2009 til 2011 neitaði Evrópsambandið því að makríll væri í íslenskri lögsögu og hafnaði því að viðurkenna rétt Íslendinga til makrílveiða. Sá réttur fullvalda strandríkis var þó skýlaus samkvæmt alþjóðalögum.

 Ég minnist þess einnig  þegar Evrópusambandið tók sér lögregluvald  og rak fulltrúa okkar á dyr af sameiginlegum fundi strandríkja sem veiddu makríl.

Í samræmi við rétt fullvalda strandríkis  gaf ég þá út tilkynningu og reglugerð um að Ísland tæki sér 130 þús tonna makrílkvóta næsta fiskveiðiár 2011 sem var um 17% af heildarveiði makríls í Norður Atlantshafi. Fyrir árið 2012 ákvað ég sem ráðherra 148 þús.tonn.

Aðrar makrílveiðiþjóðir yrðu að taka hliðsjón af því við sínar ákvarðanir.

Var sú ákvörðun mín í samræmi við það magn makríls og ætlaðs  fæðunáms hans í íslenskri lögsögu. Makrílveiðarnar árin 2009 til 2014 hafa á fimm ára tímabili skilað þjóðarbúinu um 100 milljörðum króna gjaldeyristekna og áttu einn stærstan hlut í endureisn hagkerfisins eftir hrun.

 Evrópusambandið var engin góðgerðastofnun í samskiptum á þeim árum né virtu sjálfsákvörðunarrétt smáþjóða þegar þeir hótuðu víðtækum refsiaðgerðum og innflutningsbanni á fiskafurðir frá Íslandi. Samningarnir um inngöngu í Evrópusambandið strönduðu af þess hálfu m.a.á makrílnum.

Litlar rannsóknir höfðu þá verið stundaðar á göngu makríls í Norðurhöfum.  Lagði ég því fyrir Hafrannsóknastofnun að gera sérstakt átak í að meta útbreiðslu og magn makríls. Óskaði ég jafnframt eftir samstarfi við önnur makríllönd um þær rannsóknir. Eftir fund með sjávarútvegsráðherrum Færeyja og Grænlendinga komu þeir með í þær rannsóknir.

 Evrópusambandið hafnaði öllu samstarfi í makríl

Norðmenn og Evrópuambandið höfnuðu rannsóknasamstarfinu á þeim forsendum að það ætti enginn makríll að vera í Norðurhöfum. Eftir fund með sjávarútvegsráðherra Noregs komu Norðmenn með í þessar rannsóknir en Evrópusambandslöndin hafa hafnað slíku samstarfi.

Eftir að rannsóknir og mælingarstarf varð víðtækara og nákvæmara kom í ljós að heildar makrílstofninn var mun stærri en áður hafði verið talið.  Makríllinn var m.a. í umtalsverðu magni við strendur Grænlands.

Krafa ESB landanna um að þau ásamt Noregi ættu allan makrílinn var þeim mun fáránlegri sem meiri vitneskju var aflað.

Jón Guðmundsson lærði skrifar um "svartan sjó af makríl" fyrir Hornströndum( 1574- 1658)

Mælingar sýna að um 40% alls makrílsins er nú innan lögsögu Íslands en einungis tæp 6% innan lögsögu Evrópusambandsríkjanna á sama tíma. Við ættum að réttu lagi að auka hlutdeild okkar í makrílveiðum  verulega í samræmi við þær mælingar

Það voru unnin kraftaverk í makríl

Það sýnir gríðarlegan styrk íslenskrar útgerðar,sjómanna og fiskvinnslu að á örfáum misserum getur hún sveigt sig að veiðum og vinnslu á nýrri fisktegund í miklu magni.

Ákvarðanir mínar í góðu samstarfi við þessa aðila í stýringu veiða og vinnslu voru líka algjör nýmæli í fiskveiðistjórn sem skiptu miklu máli og væri betur að væri fylgt nú. Þá var flotinn nýttur og hver og einn fékk ákveðið tækifæri til að spreyta sig.

Og á þrem árum tókst að koma á um 90% fullvinnslu á um 150 þús tonnum af makríl til manneldis og finna þeim markað.

Þau þúsundir starfa sem tengdust fullvinnslu makríls bæði á landi og á sjó voru mjög dýrmæt sjávarbyggðunum vítt og breitt um landið sem og þjóðarbúinu í heild.

Skólafólk gat komið heim í sumarfrínu sínu og aflað dýrmætra tekna fyrir næsta skólaár.

Ísland byggir fullveldi sitt á eigin forræði, verndun og nýtingu gjöfulla náttúruauðlinda.

Fiskimiðin, landhelgin og samningar um viðskipti við aðrar þjóðir á eigin forsendum eru hornsteinar sjálfstæðis hvers lands, sem við eigum að standa vörð um í samskiptum þjóða á alþjóðavettvangi. 

 

 

 

 


Eigum að reka okkar eigin utanríkisstefnu segir Bjarni Ben.

 Viðskiptaþvinganirnar flutu óvart með og Ísland á ekki að vera sjálfkrafa aðili að utanríkisstefnu Evrópusambandsins segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins: (Mbl.Bjarni hafði efa­semd­ir frá upp­hafi )

,,Menn voru einfaldlega í upphafi einhuga um að sú rödd þyrfti að heyrast frá Íslandi að við stæðum með bandalagsþjóðum okkur í afstöðunni gagnvart ástandinu í Úkraínu. Mér sýnist að það sem varðar viðskiptaþvinganirnar hafi flotið með í því samhengi.

Ég var hugsi yfir því hvort það væri sjálfsagt og eðlilegt að Ísland, sem ekki er aðili að Evrópusambandinu og þar af leiðandi ekki með í sameiginlegri utanríkisstefnu þess, tæki undir ályktanir, ákvarð- anir og aðgerðir Evrópusambandsins vegna þess að við höfum ekki á neinu stigi málsins átt neina að komu að þeim ákvörðunum.

Í því sambandi er ég fyrst og fremst að hugsa um að við rekum okkar eigin sjálfstæðu utanríkisstefnu".

Mæl þú Bjarni manna heilastur í þeim efnum. Kaldastríðinu er lokið. Herinn fór frá Íslandi þegar honum sjálfum datt í hug. Hörðustu Natósinnar gráta það reyndar enn.

Hótanir og refsiaðgerðir ESB vegna veiða okkar í eigin landhelgi standa enn. Landhelgin er hluti hins sjálfstæða Íslands.

Aðgerðir ESB eru meiri refsiaðgerðir gegn fámennri þjóð hlutfallslega heldur en meintar viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins eru gagnvart Rússum. 

Það er kominn tími á sjálfstæða utanríkisstefnu Íslands en ekki láta beita sér hugsunarlaust í hagsmunastríði stórveldanna.


Þjóðverjar eignast flugvelli Grikklands

Gríska rík­is­stjórn­in samþykkti í dag að þýska fyr­ir­tækið Fra­port-Slentel tæki við rekstri fjór­tán flug­valla í Grikklandi til næstu fjöru­tíu ára. Samn­ing­ur­inn er met­inn á 1,23 millj­arða evra, sem jafn­gild­ir um 181 millj­arði ís­lenskra króna.Um er að ræða flug­velli á mörg­um af helstu ferðamanna­stöðum Grikk­lands. Þjóðverj­ar taka við rekstri 14 flug­valla

Ein fyrsta krafa ESB á hendur Grikkjum var einkvæðing opinberrar þjónustu. Grikkir eru  píndir til að selja kínversku fyrirtæki helstu hafnir sínar.

Nú er komið að Þjóðverjum sem fá strax í sinn hlut helstu flugvelli landsins. Þannig missir Grikkland jafnt og þétt sjálfstæði sitt og sjálfforræði.

"Sein­asta rík­is­stjórn Grikk­lands hafði náð sam­komu­lagi við Fra­port en ákveðið var að bíða með málið eft­ir að rík­is­stjórn Al­ex­is Tsipras, leiðtoga vinstri­flokks­ins Syr­iza, komst til valda í janú­ar­mánuði.

Gríska rík­is­stjórn­in staðfesti í dag að hún hefði samþykkt einka­væðing­una fyr­ir sitt leyti...

Þetta er fyrsta einka­væðing­in sem til­kynnt er um eft­ir að fjár­málaráðherr­ar evru­ríkj­anna samþykktu á föstu­dag­inn að veita Grikkj­um 86 millj­arða evra lán gegn ströng­um skil­yrðum.

Rík­is­stjórn Tsipras hef­ur fall­ist á að selja rík­is­eign­ir í sam­ræmi við sam­komu­lagið við lán­ar­drottna Grikk­lands. Leig­an á flug­völl­un­um fjór­tán er liður í því sam­komu­lagi.

Lán­ar­drottn­arn­ir hafa meðal ann­ars gert þá kröfu að grísk stjórn­völd setji á stofn sér­stak­an fimm­tíu millj­arða evra sjóð um rík­is­eign­ir sín­ar." Mbl.is greinir frá: Þjóðverj­ar taka við rekstri 14 flug­valla.

  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur enn ekki samþykkt að taka þátt í "kúgunarpakka" Evrópusambandsins og segir stefnu þess alranga og muni keyra efnahag Grikkja enn dýpra niður.

 

 


Sterkur meirihluti andvígur inngöngu í ESB

Ef tekið er mið af þeim sem taka afstöðu þá eru 59,4% landsmanna andvíg inngöngu Íslands í ESB. Þetta má lesa úr skoðakönnun sem Gallupp gerði fyrir Heimssýn dagana 16.til 27. júlí síðastliðinn.

Meirihluti landsmanna, eða 50,1%, er andvígur inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Fylgjendur aðildar eru 34,2% en 15,6% svöruðu að þeir væru hvorki fylgjandi né andvígir inngöngu.

Andstaða við inngöngu er mest hjá þeim sem myndu kjósa stjórnarflokkana. Þannig eru 95% þeirra sem hefðu kosið Framsóknarflokkinn þegar könnunin var gerð andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið og 83% af  þeim sem hefðu kosið Sjálfstæðisflokkinn. Fjörutíu prósent af stuðningsflokki Vinstri grænna eru á móti inngöngu en 33% hlynnt henni.

Stuðningur við inngöngu er mestur hjá fylgisfólki Samfylkingar, 78%, en þar eykst þó óvissan því það tvöfaldast fjöldi þeirra sem er hvorki hlynntur né andvígur inngöngu frá febrúar. Þá eru 66% af fylgisfólki Bjartrar framtíðar hlynnt inngöngu í ESB og 40% af fylgjendum Pírata.

Alls voru 1482 manns í úrtaki í þessari netkönnun sem Gallup gerði á ofangreindu tímabili. Í hópnum var fólk af landinu öllu, 18 ára og eldri, handahófsvalið úr viðhorfahópi Gallup. Fjöldi svarenda var 825, eða 55,7%.

Spurt var: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) inngöngu Íslands í Evrópusambandið (ESB)? Gefnir voru sjö megin svarmöguleikar, þ.e. að öllu leyti hlynnt(ur), mjög hlynnt(ur), frekar hlynnt(ur), hvorki né, frekar andvíg(ur), mjög andvíg(ur) og að öllu leyti andvíg(ur).

Stærsti einstaki hópurinn af þessum sjö er sá sem er að öllu leyti andvígur inngöngu í ESB og fjölgaði nokkuð í honum frá könnun sem gerð var í febrúar síðastliðnum (fer úr 21,4% í febrúar í 24,6% nú).


Góð grein hjá Ögmundi Jónassyni

Mín ósk er sú að Ísland fordæmi refsiaðgerðirnar en hvetji til friðsamlegrar lausnar í Úkraínu með valddreifingu í þá veru sem Minsk samkomulagið kvað á um og jafnframt að í öllum tilvikum verði vilji íbúanna hafður að leiðarljósi en ekki hagsmunir stórvelda. Það er vesælt hlutskipti Íslands að vera hvutti í þeirra ól.

Þetta segir Ögmundur Jónasson alþingismaður og fyrrum ráðherra og rökstyður mál sitt á heimasíðu sinni og í grein í DV.:

FYRIR HVAÐ ERU ÍSLENDINGAR AÐ REFSA RÚSSUM?

 


ESB- pressan og Árni Páll kætast yfir refsiaðgerðum Rússa

Formaður Samfylkingarinnar fagnar því að Rússar skuli nú loks svara refsiaðgerðum ESB með banni á innflutningi fiskafurða frá Íslandi: "Það megi síðan spyrja hvers vegna Rúss­ar hafi ekki gripið til aðgerða gegn Íslend­ing­um á sama tíma og þeir gerðu það gegn öðrum þjóðum. „Það stakk alltaf í aug­un. En vegna þess að þeir gerðu það gagn­vart öðrum sem stóðu að viðskipta­bann­inu á sín­um tíma, þá var þetta alltaf viðbúið" segir formaður Samfylkingarinnar: "Rétt að standa gegn Rúss­um " 

Formaður Samfylkingarinnar Árni Páll Árnason heldur áfram: „Auðvitað styðjum við Evrópusambandið í refsiaðgerðum þess gegn Rússum“. Að hans mati erum við á leið inn í Evrópusambandið og því eðlilegt að við látum Evrópusambandið leiða okkur í þeim efnum. 

ESB ætlar jú að bæta öðrum leppríkjum sínum hundruð milljarða tjón sem þau verða fyrir vegna viðskiptabannsins og Ísland hlýtur að geta flotið þar með. sbr. meðf. frétt: " Hafa unnið í því að bæta tjónið "

 Árni Páll og ESB-pressan veit að stuðningur við refsiaðgerðir ESB og viðskiptabann Rússa mun hinsvegar þrýsta Íslendingum enn hraðar og dýpra í faðm Evrópusambandsins, þótt umsóknin eigi að heita stopp. 

ESB pressan, Ríkisútvarpið, Stundin og Kjarninn eiga ekki orð til að lýsa aðdáun sinni á þjónkun utanríkisráðherra: Bravó Gunnar Bragi segir Kjarninn og Stundin:

"Ef Gunnar Bragi getur gripið til óhlutbundinna raka og „prinsippa um stóra hagsmuni“ - tekið skal fram að ég deili þeirri sýn hans heils hugar - þegar hann rökstyður þátttöku Íslands í stuðningi við viðskiptaþvinganir gegn Rússum þá hlýtur hann einnig að geta séð ljósið í slíkum rökum þegar hann veltir fyrir sér hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið".

Skyldi utanríkisráðherra ekki vera hugsi þegar harðasta pressan fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið ber hann orðskrýddu lofi? Samskipti Íslands og Rússlands hafa um áratugi verið friðsamleg og góð. Engin rök eða ástæða er til að Ísland hangi aftan í refsiaðgerðum Evrópusambandsins og taki á sig skellinn vegna yfirgangs þess í austurátt.


Ráðherra lækkar kröfuna um fullvinnslu makríls

 Sjávarútvegsráðherra hefur lækkað kröfuna um fullvinnslu á veiddum makríl til manneldis úr að lágmarki 70% í 50%. Það þýðir að útgerðir geta nú sett hærra hlutfall aflans í bræðslu en áður var. Þetta er afar mikil afturför en fullvinnsla makríls hafð tekist mjög vel og manneldisskilyrðin voru eitt af stýritækjum veiðanna. Um 90% makrílaflans var unnin til manneldis.

 Á vef Landssambands smábátaeigenda segir svo (Minna til manneldis):" Breytingin snýr að 3. gr. „Vinnsla til manneldis“.  

Í stað þess að skylt verði að ráðstafa mánaðarlega a.m.k. 70% af makrílafla einstakra skipa til manneldis, er hlutfallið lækkað í 50%.
Breytingin veldur vonbrigðum þar sem hlutfall makríls til bræðslu hefur minnkað jafnt og þétt á sl. árum.  Úr því að vera 100% í bræðslu á fyrsta ári makrílveiða 2007 í 11% á árinu 2014.
Eftir að hafa tekist á örskömmum tíma að færa okkur úr bræðslunni yfir í að fullvinna makrílinn er hér um afturför að ræða.  Líta verður á að breytingin sé tilkomin vegna erfiðleika á mörkuðum fyrir fullunninn makríl.
LS er ekki kunnugt um hvaða viðræður hafi átt sér stað áður en sjávarútvegsráðherra tók ákvörðun um að breyta reglugerðinni.  ...   Á þann hátt hefðum við haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið að hámarka þau verðmæti sem fást úr makrílnum.   Einnig hefði verið komist hjá neikvæðri umræðu sem óhjákvæmilega skapast þegar matfiskur er bræddur og seldur sem mjöl.
 
Screen Shot 2015-08-12 at 13.57.17.png
 
 
Ég tek undir með Landssambandi smábátaeigenda og harma þessa ákvörðun ráðherrans.
Nær hefði verið að létta af sérstöku veiðigjaldi á makríl og gefa handfæra og línuveiðar á makríl frjálsar. Stýra síðan veiðunum á flotann miðað við gæði aflans og í takt við hina siðferðilegu kröfu um fullvinnslu makrílsins til manneldis
Sjávarútvegsráðherrann hefði átt að standa vörð um hagsmuni sjávarbyggðanna vítt og breytt um landið og hafna refsiaðgerðum Evrópusambandsins á Rússland. 
Lækkun vinnsluskyldu bitnar fyrst á atvinnu við löndun og vinnslu makríls í minni sjávarbyggðum
-  Kannski ætti ráðherrann að biðja umboðsmann Alþingis um að blessa þessa siðferðislega röngu aðgerð sína í veiðum og vinnslu makríls!
 
 

Alvarleg mistök utanríkisþjónustunnar

Stuðningur við refisaðgerðir Evrópusambandsins gegn Rússum eru  alvarleg mistök íslensku utanríkisþjónustunnar. Með þátttöku sinni í óskilgreindum refsiaðgerðum eru Íslendingar að breyta um stefnu frá hlutleysi sem þeir hafa annars jafnan fylgt í slíkum málum allt frá stofnun sjálfstæðis landsins.

Viðskiptaþvinganirnar nú eru algjörlega á fosendum Evrópusambandsins sjálfs og Íslendingar virðast engan hlut eiga að máli við undirbúning þeirra. Ekkert mat virðist hafa verið lagt fyrirfram á tilgang þeirra, áhrif eða afleiðingar.

Viðskiptafrelsi hverrar þjóðar er hornsteinn sjálfstæðis hennar og ákvarðanir í þeim efnum eiga að takast á heimavelli en ekki sem taglhnýtingar annarra þjóða eða ríkjasambanda.

Svo virðist sem Evrópusambandið gefi út yfirlýsinguna fyrir Íslands hönd um stuðninginn við refsiaðgerðirnar. Íslendingar hafa að jafnaði ekki tekið þátt í þvingunaraðgerðum stórveldanna en verið boðberar sjálfstæðis, friðar, sátta og mannréttinda á alþjóðavettvangi

Við Íslendingar höfum þurft að berjast fyrir rétti okkar og sjálfstæði sem strandríkis um yfirráð fiskveiðilögsögunnar og eðlilegri hlutdeild í deilistofnum eins og síldar, makríls og kolmunna. Þetta er hluti af fullveldisbaráttu okkar

Markaðir fyrir makrílafurðir í Rússlandi og öðrum Austur- Evrópulöndum eru okkur miklivægir.

Um 30 milljarða tekjur af makríl á ári fyrir Ísland skiptu sköpum í endurreisn efnahagskerfisins eftir hrun.

Nágranna þjóðir okkar nema Færeyingar brugðust við með hryðjuverkalögum og hótunum um viðskiptaþvinganir. Samt eru þetta áfram okkar vinaþjóðir

Nú koma menn fram af fullkominni vanþekkingu og segja ekkert mál að finna nýja markaði fyrir uppsjávarfisk eins og makríl inn í lönd Evrópusambandsins.

Staðreyndin er hinsvegar sú að það er 18% tollur á makríl inn í ESB og refsivöndurinn á lofti ef við göngum ekki að kröfum þeirra um skiptingu makrílkvóta.

Hvaða staða er það fyrir Ísland að þurfa að knékrjúpa fyrir ESB og biðja þá um að fella niður innflutningstolla á makrílafurðir?

Evrópusambandið getur sagt: sjálfssagt að skoða það en þá verðið þið fyrst að fallast á kröfur okkar um yfirráð yfir makrílveiðunum.

Stuðningur Íslands við refsiaðgerðir ESB gegn Rússum er afar vanhugsuð aðgerð og getur snúist gegn okkar eigin sjálfsákvörðunarrétti sem þjóðar eins og í fiskveiðum, frelsi í viðskiptum og áhrifum á alþjóðavettvangi

Það er mikilvægt bæði fyrir Ísland og Rússland og alþjóðasamfélagið að þessar þjóðir eigi áfram gott samstarf og fjölþætt viðskipti eins og þær hafa átt áratugum saman.

 


Gefa á veiðar smábáta á makríl frjálsar og stórauka heildarkvóta

 Hafrannsóknastofnun mælir nú enn stóraukningu á makríl í íslenskri fiskveiðilögsögu. Magnið er enn suður, vestur og austur af landinu en mun færast á grunnslóðina.:(Makrílveisla á Íslandsmiðum")

Þess vegna er sjálfsagt að auka strax það heildarmagn sem íslendingar taka úr heildarstofninum. Í minni tíð sem ráðherra var talið eðlilegt að hlutur Íslendinga væri 16,5% af heildarveiði landanna makríl. Nú hefur magn makríls í íslenskri lögsögu enn aukist og þá tilefni til að auka strax veiðiheimildir.

Það var mjög misráðið hjá sjávarútvegsráðherra að takmarka svo mjög magn makríls hjá smábátum á færi  og línu og setja það í kvóta á bát.

Þá var það rangt hjá ráðherra að beita sér fyrir sérstöku auka veiðigjaldi á makríl, 10 kr á kíló. Þssar ráðstafanir ráðherra ásamt lækkunum og ósvissu á mörkuðum hafa leitt til þess að örfáir makrílfærabátar hafa hafið makrílveiðar.

Undanfarin ár hafa makrílveiðar minni báta skapað mikla atvinnu og líf í sjávarbyggðum landsins. 

Frekar á að hvetja til makrílveiða minni báta á grunnslóð en drepa þær eins og aðgerðir ráðherra gætu miðað að.

Hér með er skorað á ráðherra að auka strax heildamagn Íslands í veiðum á makríl við Íslandsstrendur og gefa þær frjálsar fyrir færa og línuveiðar á grunnslóð. 

"Ályktun aðalfundar 2014:
 
Aðalfundur LS ályktar að LS beiti sér að fullum þunga  
fyrir því að makrílveiðar á handfæra- og línubátum verði
aldrei kvótasettar.Veiðar hefjist ekki fyrr en 1. júlí og verði til 31. desember
ár hvert.
Barist verði fyrir því að smábátar fái að veiða 18% af
heildarúthlutun aflamarks í makríl."
 

  

Makrílveisla á Íslandsmiðum


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband