Staksteinar aðvara ríkisstjórnina

Ísland er enn með stöðu umsóknarríkis hjá ESB. Þar með er beiðni um inngöngu í sambandið áfram opinber stefna íslenskra stjórnvalda þó svo sitjandi ríkisstjórn hafi inngönguna ekki á sinni stefnuskrá.

EF ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks stendur ekki við loforð sín um skýra og afdráttarlausa afturköllun ESB umsóknarinnar fara svik hennar á blað með "mestu pólitískum svikum sögunnar".

Landsfundarsamþykktir og kosningaloforð núverandi ríkisstjórnarflokka um afturköllun umsóknarinnar og lokunar Evrópustofu voru skýr.

Það var líka stefna Vinstri grænna og kosningaloforð vorið  2009. Í Staksteinum eru svik VG og Samfylkingar í síðustu ríkisstjórn tíunduð.   Væru ekki tvö brot stærri en eitt?

Staksteinar skafa ekki utan af svikunum varðandi ESB umsóknina:

"Einhver mestu pólitísku svik sögunnar, þessi þegar Steingrímur J. bakkaði frá margítrekuðum skýrum loforðum um að fara ekki í aðildarviðræður að loknum kosningum 2009, voru fyrsta skrefið í þá átt að afmá muninn á VG og Samfylkingu.

Steingrími tókst að hrekja ESB-andstæðingana úr flokknum og fá þá sem eftir voru til að fylkja sér um kíkja-í-pakkann-stefnuna til að þóknast Samfylkingunni".

Ekkert nýtt er í þessum setningum um forystu VG, en skilaboðin til forystumanna Framsóknar og Sjálfstæðisflokks eru hinsvegar skýr.

Eitthvert kurteisisbréf utanríkisráðherra til Brüssel hefur mönnum þar á bæ ekki þótt svaravert.

Formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hljóta að taka aðvörunarorð Staksteinahöfundar alvarlega.

 


ESB umsóknina hefði átt að bera upp ríkisráði

Í Lýðveldisstjórnarskránni frá 1944, 16 grein er kveðið skýrt á um að "lög og mikilvægar  stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði".

Ég var í ríkisstjórn eins og alþjóð veit þegar hin umdeilda beiðni um inngöngu í Evrópusambandið var samþykkt á Alþingi 16. júní 2009 með margskonar fyrirvörum.

Deila má um hversu lýðræðisleg sú ákvörðun var. Forsætisráðherra tók einstaka þingmenn í samstarfsflokknum á "teppið" og óð á milli þeirra undir atkvæðagreiðslunni eins og frægt var.

Fleira mætti rifja upp um "lýðræðið" í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar 16.júní 2009 sem ekki er til eftirbreytni 

Ég minnist þess ekki að ástæða hafi verið talin til þess, að bera þá "stjórnarráðstöfun", sem umsóknin var upp í ríkisráði.

Hún var ekki talin svo stór ákvörðun að þess þyrfti. Ég tel hinsvegar að það hefði átt að gerast

Ef minni mitt brestur ekki var  einmitt að því fundið við forsætisráðherra á sínum tíma.

Nú þykir sömu þingmönnum og þá sátu í ríkisstjórn  að staðfesting á andláti umsóknarinnar sé meiriháttar stjórnarráðstöfun.

Umsóknin var á sínum tíma og er enn skilyrt af hálfu Alþingis sem bæði ríkisstjórnin og samninganefndin var bundin af. 

Evrópusambandið tekur hinsvegar ekki við skilyrtri umsókn og lýsti því strax að Ísland yrði að yfirtaka öll lög og reglur Evrópusambandsins.

Í því er fólgin ósamrýmanleg þversögn, sem þeir er báru ábyrgð á umsókninni neituðu að horfast í augu við. 

 Nú er fullljóst að ekki er hægt að halda áfram með umsóknina og inngönguferlið nema falla frá þeim skilyrðum sem Alþingi setti ríkisstjórninni.

Jafnframt liggur fyrir að núverandi stjórnvöld eru andsnúin inngöngu í Evrópusambandið.

Þetta er í raun sú staða sem utanríkisráðherra hefur tilkynnt Evrópusambandinu bréflega og því sé að hans mati Ísland ekki lengur umsóknarríki þó svo þar hefði þurft að kveða skýrar að orði. Samskonar tilkynningu á ríkisstjórnin að senda  Alþingi formlega með staðfestingartillögu eða þingsályktun um refjalausa afturköllun umsóknarinnar, en það væri bæði lýðræðilegast og réttast. Í framhaldi af því væri svo ákvörðun alþingis send ESB.

Þyki staðfesting utanríkisráðherra á andláti ESB umsóknarinnar og greftrun hennar meiriháttar stjórnarráðstöfun nú getur ráðherra borið hana upp á næsta ríkisráðsfundi og ég mæli með því að svo sé gert.

(Stjórnarskráin 16 gr. "Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti. Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði").

 Ef þingmenn hafa sjálfir ekki burði til að leggja fram þingmál geta þeir snúið sér til forsetans samkvæmt 25. grein:

" Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta".

Svo einfalt er það.

 

 


Viltu ganga í Evrópusambandið eða ekki?

Beiðnin um inngöngu í Evrópusambandið sem send var 2009 var með skýlausum fyrirvörum af hálfu Alþingis, fyrirvörum sem ESB féllst ekki á meðal annars um yfirráð yfir sjávarauðlindinni" sagði Erna Bjarnadóttir í Kastljósi áðan.

"Þess vegna er ekki hægt að halda áfram með umsóknina nema Alþingi felli niður þessa fyrirvara og ríkisstjórnin sæki sér nýtt umboð".

Þjóðaratkvæðagreiðsla um að halda áfram þessari umsókn er ómöguleg því umsóknin með fyrirvörum Alþingis er efnislega og pólitískt stopp. Samfylkingin sjálf gafst upp á að fylgja eftir þessu eina baráttumáli sínu í janúar 2013: Menn þar á bæ vissu að það var ekki hægt. Forysta Vinstri grænna eru áfram föst í tvískinningnum.

Viðræðunum við ESB um þessa þingsályktun er því í raun lokið. Samninganefnd Íslands hafði hvorki heimild til né gat samþykkt einhliða kröfur ESB.

 Það er ekkert til sem heitir aðildarviðræður heldur er spurningin aðeins um viltu ganga í Evrópusambandið ekki.

 Úr stækkunarhandbók ESB 

„Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 100 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.“

 ([1] “First, it is important to underline that the term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 90,000 pages of them. And these rules ... are not negotiable.” (Sjá: http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/enl-understand_en.pdf)

Framhald aðlögunarviðræðna getur því ekki orðið nema að meirihluti þings og þjóðar vilji fara í Evrópusambandið og gangi til skilyrðislausra viðræðna. Fyrir því er enginn pólitískur vilji sem betur fer. Yfir 60% þjóðarinnar sem afstöðu tóku í nýafstaðinni skoðanakönnun var andvígur inngöngu í ESB. 

 


Héldu að ríkisstjórnin væri að segja sig frá Eurovision

Sá góði brandari gengur í netheimum að ESB-sinnarnir á Alþingi hafi tryllst þegar þeim barst frétt um að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefði farið til Brüssel og sagt Ísland frá keppni í Eurovision. Stjórnarandstaðan sendir ESB bréf

Var strax óskað eftir fundi með forseta Alþingis að hann kallaði þegar í stað til þingfundar þar sem ráðherra gerði grein fyrir þessum aðgerðum sínum.  

Þetta írafár þingflokksformanna ESB sinnanna kom forseta þingsins Einari K Guðfinnssyni í opna skjöldu og skildi hann hvorki upp né niður í hvað var á seiði.

Formönnunum var mikið niðri fyrir og töluðu hver upp í annan svo forseti þingsins skildi ekki neitt og hafnaði beiðni um þingfund, enda fólk að búa sig í árlega þingveislu og sumir eftir að raka sig eða fara í bað og í hárgreiðslu.

Klagað til "stórumömmu" í Brüssel

Þingsflokksformönnum fannst stórlega að sér vegið, fóru í fýlu og hringdu í "stórumömmu í Brüssel" og klöguðu.

"Stóramamma" skyldi heldur ekkert hvað var á seyði og bað um að sér yrði sent bréf sem hún tæki fyrir í fjölskylduráðinu. Stjórnarandstaðan sendir ESB bréf

Og talsmenn litlu ESB barnanna á þingi sendu " stórumömmu sinni í Brüssel" klögubréf um að farið væri illa með þá uppi á Íslandi. Þeir lagðir í einelti og hafðir útundan:

  "Það er enginn sem skilur okkur og enginn sem vill hlusta á okkur. Við förum ekkert á ballið sem okkur var búið að hlakka svo til að fara á".

Hefur slíkt bréf ekki sést síðan Gissur jarl Þorvaldsson klagaði Sturlunga fyrir Noregskonungi þegar þeir vildu ekki taka hann fyrir jarl í umboði konungs yfir Íslandi.

Allt hefur þetta sem betur fer reynst misskilningur.

Ísland verður með í Eurovision og er staðráðið í því að vinna.

Utanríkisráðherra var aðeins að tilkynna aðstandendum í Brüssel um jarðarför rotnandi líks sem hét Umsókn um inngöngu í Evrópusambandið.

 


Ísland ekki lengur umsóknarríki að ESB

Samkvæmt yfirlýsingu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra rétt í þessu er Ísland ekki lengur umsóknarríki að ESB. Þessu er hér með fagnað.

Umsóknin var hrein lögleysa frá byrjun.

Umsóknin fór efnislega í strand síðla árs 2011 þegar ég sem ráðherra hafnaði kröfumm Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og dýraheilbrigðismálum.

ESB neitaði að opna á viðræður um sjávarútvegsmál nema að við viðurkenndum fyrirfram forræði ESB í sjávarútvegsmálum.

Þótt mér væri síðar vikið úr ráðherrastóli vegna afstöðu minnar til inngöngu í ESB náði ríkisstjórnin ekki að breyta þeim ákvörðunum sem ég hafði þá tekið í samræmi við fyrirvara Alþingis

 Ófrávíkjanleg krafa ESB um full yfirráð yfir fiskveiðiauðlindinni og samningsrétti um deilistofna við önnur ríki réð baggamunin. En fleira kom til.

Öllum viðræðum var í raun lokið og ljóst að ESB krafðist þess  að Ísland gengist undir öll lög og reglur ESB, engar varanlegar undanþágur voru í boði.

Mikilvægt er að Framvæmdastjórn Evrópusambandsins staðfesti nú sín megin að þessum viðræðum sé lokið og Ísland tekið út af lista þess sem umsóknarríki.

 

 

 


Að duga eða drepast

Talsmenn ESB eru hálir sem álar, en vita hvað þeir vilja þó sjaldan sé það sagt beint út. Þetta mun utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson reyna er hann fundar nú með starfsbræðrum sínum í Evrópusambandslöndum. Þar mun hann væntanlega greina frá aðgerðum ríkisstjórnarinnar við afturköllun umsóknarinnar að ESB.  ( Morgunblaðið: Lítil eindálka frétt á bls. 4 boðberi meiri tíðinda?)

 Þeir eru vísir til þess að klappa utanríkisráðherra, Gunnari Braga á öxlina og segjast skilja vandamál hans, en jafnframt segja að það erum við í Brüssel sem ráðum. 

Við sjáum meðhöndlun Brüsselvaldsins á Grikkjum þessa dagana.

Hve oft kom ekki fyrrverandi utanríkisráðherra heim af slíkum fundum með starfsbræðrum sínum í ESB, brosandi og kampakátur.

Þeir höfðu oftsinnis klappað honum á öxlina, fullir vorkunnsemi  og sagst skilja vandamál hans heima á Íslandi. 

En það er Ísland sem er að ganga í Evrópusambandið en ekki öfugt og það verður að uppfylla öll lög og reglur sem Evrópusambandið starfar eftir.

Hversu langan tíma það tekur að hala Ísland inn  er ekki aðalmálið. Þeir munu því leggja megináherslu á að af þeirra hálfu sé umsóknin áfram virk, aðeins lögð til hliðar.

Við skulum hjálpa ykkur með IPA styrkjum og Evrópustofu. Evrópustofa er opin enn. 

"Þeir eru svo góðir og skilningsríkir, borguðu flugfar og vasapeninga og gáfu mér meir að segja vindil" sagði einn viðmælandi minn eitt sinn.

Þegar Ísland bað um inngöngu í Evrópusambandið varð það að undirgangast ýmis skilyrði og skuldbindingar sem umsóknarríki verður að uppfylla og standa við.

Þó ekki sé  það  eins og evruklúbburinn er alveg ljóst að öll samskipti í afturköllun umsóknarinnar verða að vera skýr og afdráttarlaus. Evrópusambandið mun vilja hafa það loðið. Þarna mun velta á styrk ráðherrans

Ísland verður að fara formlega af listanum sem umsóknarríki og það þarf að staðfestast af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Það verður að vera fullkomlega ljóst og staðfest af báðum aðilum að þessi umsókn sé fallin úr gildi.

Formaður aðalsamninganefndarinnar af Íslands hálfu um inngöngu í Evrópusambandið er nú ráðuneytisstjóri og aðalráðgjafi utanríkisráðherrans. Það getur  verið bót í máli að kunna klækina þótt með öðrum formerkjum sé?

Fyrrverandi formaður samninganefndarinnar hefur nú það hlutverk að leiðbeina nýjum ráðherra gegnum hina prúðbúnu úlfahjörð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. 

Af minni reynslu sem ráðherra myndi ég vera á verði gagnvart slíkri ráðgjöf. Hinsvegar er það ráðherra sem á að ráða og ber að sjálfsögðu alla ábyrgð. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur verið mjög mjög afdráttarlaus í afturköllun umsóknarinnar og mun vonandi ekki láta tungulipra ESB menn slá sig út af laginu.

Aðlögunarviðræðurnar að ESB voru í raun stöðvaðar síðari hluta árs 2011 þegar ég neitaði að láta undan kröfum Evrópusambandsins og sumra kollega minna í ríkisstjórn, svo sem í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum og dýraheilbrigðismálum.

Þá vannst sigur.

 Einhliða ákvörðun í makrílkvóta Íslendinga gegn vilja ESB gerði svo út um málin á þeim tímapúnkti. Ákvörðun núverandi ríkisstjórnar hefur í raun enn aðeins verið að staðfesta það sem þá var orðið.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar  voru kosnir út á landsfundarsamþykktir sínar og kosningaloforð um formlega og afdráttarlausa afturköllun umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið.

Utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson og ríkisstjórnin öll stendur frammi fyrir því að efna þau loforð refjalaust.

 


26. mars ?

Senn kemur 26. mars sem er lokadagur til að leggja mál fyrir þingið sem eiga að afgreiðast á þessu vori. Formenn beggja ríkisstjórnarflokkanna hafa lýst því yfir að tillaga komi fyrir þingið um formlega afturköllun umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið. Bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru með skýrar landsfundarsamþykktir að baki sér um afturköllun umsóknarinnar.

Það fer ekki vel fyrir þeim flokkum sem svíkja stefnumál sín og kosningaloforð enda hafa yfirlýsingar formanna flokkanna verið afdráttarlausar um að umsóknin verði formlega afturkölluð.

Það var Alþingi sem samþykkti að senda inngöngubeiðnina í ESB.

Ísland er formlegt umsóknarríki meðan umsóknin stendur inni og alþingi hefur ekki afturkallað hana. Hún stendur sem stefna þings og ríkisstjórnar á opinberum vettvangi þangað til að hún hefur verið afturkölluð af þeim sömu stjórnsýsluaðilum og samþykktu að senda hana inn.

26. mars nálgast. Fyrir þann tíma hafa bæði formenn ríkisstjórnarflokkanna og utanríkisráðherra lofað að tillagan um afturköllun komi fyrir þingið.

Brostinn er verulegur flótti í lið hörðustu ESB sinnanna. Fyrir stjórnarflokkana er að fylgja eftir samþykktum sínum.


ESB tillaga stjórnar S.I. gerð afturreka

Stjórn Samtaka iðnaðarins var gerð afturreka með tillögu sína um að halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið á aðalfundi samtakanna í gær. Iðnþing breytti álykt­un um ESB

 Í Samtökum iðnaðarins eru samkvæmt heimasíðu þeirra 1410 fyrirtæki og auk þess  liðlega 30 aðildarfélög. Framkvæmdastjórinn fullyrðir við Vísi í gær að  aðalfundurinn ítreki afstöðu sína um að halda áfram viðræðum  um inngöngu í Evrópusambandið. „Stjórn Samtaka iðnaðarins skoraði í janúar á stjórnvöld að slíta ekki viðræðunum við Evrópusambandið". 

Reyndin varð hinsvegar önnur á aðalfundinum.

Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur fram aða aðalfundurinn hafi gert stjórnina afturreka með tillöguna um að ljúka beri viðræðum við ESB um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. (Iðnþing breytti álykt­un um ESB )

Hins vegar var samþykkt tillaga í þá veru að ekki yrði haldið áfram aðildarviðræðum nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er nefnilega allt of mikið um að stjórnir stórra samtaka séu að álykta  umboðslausar  fyrir hönd félaga sinna um mál sem eru í sjálfu sér stórpólitísk, en hafa ekki verið tekin til umræðu eða afgreiðslu í grunneiningum samtakanna.

Stundum taka framkvæmdastjórarnir sér það bessaleyfi að yfirfæra persónulega skoðun sína á samtökin sem þeir vinna fyrir. Ekki er ég þó að segja að svo sé í þessu tilviki.

Hins vegar þegar litið er á nafnalista hinna 1410 fyrirtækja sem eiga aðild að Samtökum iðnaðarins er alveg ljóst að fjölmörg þeirra og langflest eiga enga samleið með inngöngu í Evrópusambandið og mjög ólíklegt að þau greiði áframhaldandi inngönguferli atkvæði sitt.

 Sú beiðni um inngöngu í Evrópusambandið sem send var 2009 var með skýlausum fyrirvörum af hálfu Alþingis, fyrirvörum sem ESB féllst ekki á meðal annars um yfirráð yfir sjávarauðlindinni. Sama var einnig um matvælaiðnaðinn í landinu.

Þess vegna er ekki hægt að halda áfram með umsóknina nema Alþingi felli niður þessa fyrirvara.

Viðræðunum er í raun lokið. Samninganefnd Íslands hafði hvorki heimild til né gat samþykkt einhliða kröfur ESB. Eftir er aðeins að afturkalla umsóknina:

 1)Úr stækkunarhandbók ESB 

„Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 100 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.“

 Málið snýst því einfaldlega um hvort ég eða þú viljir ganga í Evrópusambandið eða ekki. Nýleg skoðanakönnun sem  Capacent vann fyrir Heimssýn kom fram að yfir 60% þeirra sem tóku afstöðu voru andvíg inngöngu í Evrópusabandið

Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna sem eru bæði efnislega og póltískt stopp er er því alveg út í bláinn.  

Framhald viðræðna getur því ekki orðið nema að meirihluti  þings og þjóðar vilji fara í Evrópusambandið og gangi til skilyrðislausra viðræðna.  

 Eins og staðan er nú þá er Ísland umsóknarríki á forsendum þeirrar skilyrtu inngöngubeiðni sem Alþingi samþykkti naumlega 2009. Nú hefur það komið í ljós að Evrópusambandið fellst ekki á skilyrði Alþingis.´

Þá annaðhvort verður Alþingi að breyta skilyrðum sínum og fallast á kröfur ESB eða draga umsóknina til baka. 

Núverandi ríkisstjórn með meirihluta Alþingis á bak við sig  vill hætta þessum viðræðum, hún  fellst ekki á kröfur ESB og vill standa utan Evrópusamandsins.  Henni ber því að afturkalla umsóknina. 

 

 


Að horfast í augu við veruleikann

 Síðasta skoðanakönnun um fylgi flokkanna undirstrikar áfram trúnaðarbrestinn sem varð milli ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og þjóðarinnar;  milli forystumanna Samfylkingar og Vinstri grænna við kjósendur sína.

Ekki veit ég til þess að Samfylkingin hafi  enn gert upp innbyrðis hlut sinn í bankahruninu og Hrunstjórninni með Sjálfstæðisflokknum. 

Jóhanna Sigurðardóttir sat jú í sérstöku fjármálaráði ríkisstjórnar Geirs Haarde.

Evrópusambandsumsóknin sem öllu átti að bjarga hangir enn eins og myllusteinn um háls Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Enn reyna þeir báðir að verja inngöngubeiðnina í ESB  þótt nánast allir sjái hversu vonlaust það er.                         

(Vinstri flokkarnir í meiriháttar krísu og Björt framtíð virðist varla skilja erindi sitt í pólitík ( Egill Helgason)

Forysta Vinstri Grænna verður að gera upp við sjálfa sig og kjósendur sína svikin við loforðin og stefnu flokksins þegar hún  samþykkti inngöngubeiðnina í Evrópusambandið.

Hjá forystu VG dugar enginn  kattarþvottur, nema þá helst  "villikattaþvottur"!

Gamall krataleiðtogi, Jón Baldvin Hannibalsson sér að vinstri flokkar muni seint geta sameinast innbyrðis eða sótt fram  meðan ESB umsóknin hangir inni. Hún kljúfi þá jafnvel enn dýpra en  hersetan gerði á sínum tíma. ( Guðföður ESB-umsóknar Íslands lýst ekki lengur á ESB)

Hin vonlausa ESB umsókn er ekki þessi virði, segir Jón Baldvin. Enda var Jón Baldvin aldrei neinn sérlegur aðdáandi Jóhönnu Sigurðardóttur. Og hversvegna skyldi Árni Páll ganga sig upp að hnjám og fórna flokknum fyrir þetta eina mál Jóhönnu, inngöngu í ESB?

 Samfylkingin situr uppi sem eins máls flokkur meðan hún berst fyrir inngöngu í Evrópusambandið.

Vinstri Græn verða hjáróma í hvaða máli sem er meðan þau tala  ekki hreint út í grundvallar stefnumáli sínu : að verja fullveldi þjóðarinnar og standa utan ESB. Ef maður er á móti inngöngu í ESB þá er ekki sótt um. Svo einfalt er það.

Flokksráðsfundir VG geta samþykkt úrsögn úr Nató, gott mál, en samtímis samþykkt að halda áfram göngunni inn í  Evrópusambandið í stað þess að afturkalla umsóknina.

Það er ekki mikill trúverðugleiki þar á ferð, þetta er ekki einu sinni fyndið, heldur sorglegt fyrir okkur vinstrimenn.

Meðan Ísland er umsóknarríki að ESB er það hin opinbera stefna stjórnvalda að komast þar inn.

Ríkisstjórnarflokkarnir báðir lofuðu því fyrir kosningar að hætta við umsóknina, sem þýðir beint að hún verði afturkölluð.

Þegar allt kemur saman ætti það að vera beinn hagur allra flokka á alþingi að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið verði afturkölluð hið snarasta.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband