ESB umsóknin enn í fullu gildi ?

Sendiherra ESB á Íslandi telur aðildarumsóknina frá 2009 mögulega enn í fullu gildi. Þetta kemur fram í viðtali við Matthías Brinkmann sendiherra ESB í Morgunblaðinu í dag.

(ESB-umsóknin mögulega enn í gildi )

Sendiherrann dregur í efa að endurnýja þurfi umsóknina frá 2009, heldur megi halda áfram þar sem frá var horfið, ef íslenskum stjórnvöldum sýnist svo. Breyti þar engu þótt Ísland hafi verið tekið af hinum og þessum listum yfir umsóknarríki í arkívunum  Brüssel 

Margir hafa óttast að torræð bréfaskrifti utanríkisráðherra við forystumenn framkvæmdarstjórnar ESB í Brüssel hafi aðeins verið einskonar skollaeikur til heimabrúks á Íslandi.

Ríkisstjórnin hafi heykst á að fara með afturköllunina gegnum þingið og þess vegna sé staða umsóknarinnar óbreytt.

Uppáskrift utanríkisráðherra Íslands á refsiaðgerðir ESB gegn Rússlandi, sem bitnar fyrst og fremst á okkur sjálfum bendir einnig til þess, að það sé í raun ESB sem ráði ferð í utanríkismálum Íslendinga.

Hátíðleg loforð núverandi stjórnarflokka um afdráttarlausa afturköllun ESB umsókn virðast marklaus og í uppnámi samkvæmt yfirlýsingum sendiherra ESB.

Forsetinn, Ólafur Ragnar Grímsson heldur uppi merki sjálfstæðis í utanríkismálum Íslendinga.

Mikilvægt er að ríkisstjórnin geri hreint fyrir sínum dyrum með skriflegum staðfestum hætti að umsóknin hafi verið afturkölluð og skrifleg staðfesting ESB komi um að umsóknin hafi ferið felld úr gildi og endursend til Íslands.

 

 

 


Sjálfstæð landamæravarsla Íslands

Sameiginlegt ytra landamæraeftirlit ESB ríkja var liður þáverandi utanríkisráðherra Íslands 1996-2001 í að leiða landið inn í Evrópusambandið. Nú er Schengen að hrynja og aðild Íslands hefur aðeins verið þjóðinni til vandræða og aukins kostnaðar.

Enn eru því miður til ESB- sinnaðir flokkar og þingmenn sem á Alþingi vilja halda áfram aðildarumsókninni að ESB frá 2009 og ríghalda í Schengen.

" Schengen brugðist "

Forseti Íslands kveður skýrt að orði á rás tvö í dag og segir að Schengen-eftirlitið hafi brugðist í aðdraganda hryðjuverkanna í París. Hann segir eðlilegt að Íslendingar velti því fyrir sér hvort þeir eigi að taka þátt í samstarfinu (Segir Schengen-eftirlitið hafa brugðist:

Þá skiptir það máli og er enn ein áminningin um það hvernig þetta tengist okkur Íslendingum að við erum líka útvörður í Schengen-samstarfinu. Þeir sem koma frá Bandaríkjunum til Íslands ganga inn í Schengen-samstarfið í gegnum hið íslenska hlið. Og eftir því sem ferðum og flugferðum fólks frá Asíu til Íslands fjölgar, og það mun gerast, þá verðum við í vaxandi mæli hlið og útvörður Schengen-svæðisins." Segir Schengen-eftirlitið hafa brugðist

Á Ísland að taka þátt í Schengen?

Hvers vegna ákváðum við Íslendingar á sínum tíma að vera í því og hvers vegna eigum við að vera í því áfram? Höfum við þá burði, ef við verðum í því áfram, til þess að taka á okkur þær skyldur, sem forysturíki Schengen-samstarfins munu í ljósi þessara atburða knýja okkur á um að taka?"

Forsetinn tekur af skarið

Athyglisvert er að það er forsetinn en ekki utanríkisráðherrann   sem kveður upp úr með að segja sig frá Schengen.

En úrsögn úr Schengen væri einn líkkistunaglinn enn í ESB umsóknina frá 2009. 

Ísland á þegar í stað að segja sig frá Schengen samstarfinu og treysta á eigin landamæraeftirlit sem hæfir sjálfstæðu litlu eyríki sem Ísland er.

Með því er allsekki verið að segja sig frá alþjóðlegu samstarfi í landmæravörslu heldur gera það á eigin forsendum sem eyríki eins og t.d. Bretar gera.

 


Uppeldis- og menningargildi skólamötuneyta

 Matur, val á hráefni í mat, matseld og matarlykt er mikilvægur þáttur í uppeldi og þroska barna og unglinga. Lokun skólamötuneyta og verksmiðjuvæðing skólamáltíða frá stóru miðlægu eldhúsi er spor í kolranga átt. 

Mér finnst í raun yfirvöld sem gera slíkt að forgangsmáli þurfi að endurskoða hvað þau meina með skólastefnu, uppeldis og menningarhlutverki skólanna. Miklu frekar ætti að tengja börnin meir við einmitt þennan þátt í starfinu, val á hráefni í matinn og matseldina sjálfa.

Matarlyktin og nándin við þennan einn mikilvægasta þátt holls lífernis ætti frekar að vera skipulagður og virkur þáttur í skólastarfinu sjálfu.

Ég tek því heilshugar undir með Gunnari Svanberg Bollasyni, formanni félags faglærðra matreiðslumanna í grunnskólum Reykjavíkurborgar sem birtist sem opnugrein  í Fréttablaðinu í dag og  ber yfirskriftina:

" Nei við miðlægu eldhúsi fyrir grunn- og leikskóla".

  Gunnar varar við áformum um : "að úthýsa matreiðslunni úr skólunum í miðlægt verksmiðjueldhús úti í bæ, sem keyrir matinn í hitabökkum út í skólana". 

Og Gunnar leggur áherslu á mikilvægi "á góðum mat handa börnum og starfsfólki"..   "Til þess að svo megi verða þarf að bæta mönnun  og starfsaðstæður þeirra sem sinna þjónustinni í skólunum". Og áfram segir Gunnar

 "Foreldrar kennarar og skólastjórnendur  vita að aðgengi barna að hollum og góðum mat er grunnforsenda fyrir velferð og vellíðan í leik og starfi barna".....

"Börnin okkar eiga skilið annað og betra en fjöldaframleiddan verksmiðjumat sem hendist um í bílum í hitabökkum löngu áður en hann er framreiddur" segir Gunnar að lokum.

Menning- hollusta- matarást

Í umræðunni um hollustu og heilbrigði, matarmenningu og heimilslegt yfirbragð hlýtur að vera mikilvægt að fylgja því eftir  ekki aðeins á orði heldur einnig á borði og það í uppeldistöðvunm barna sem skólarnir eru.

 

 


Árni Steinar Jóhannsson

Árni SteinarHinn einlægi baráttumaður og góður félagi,  Árni Steinar Jóhannsson fyrrverandi alþingismaður, er látinn 62 ára að aldri.

Okkur vini hans slær hljóða, þó að við höfum vitað að barátta hans við illvígt krabbamein gæti endað á þann veg.

Í pólitísku samstarfi eignast maður fáa vini, en góða. Árni Steinar var einn slíkur. Glaðværðin, frásagnargáfan og einlægnin einkenndi þennan mikla höfðingja.

Betri ferðafélaga var vart hægt að hugsa sér. Ég minnist áranna sem við áttum saman á þingi 1999-2003. Hve oft tókum við ekki saman sennurnar á löngum þingfundum við andstæðingana á Alþingi og höfðum gaman af?! 

Árni var einstakur baráttumaður með mikinn sannfæringakraft, naut alþýðuhylli og það vissu allir að honum mátti treysta.

Hann naut  mikillar virðingar hvar sem hann fór, glæsilegur í fasi, flugmælskur og leiftrandi af kímni.

Vinsældir, stefnufesta og málafylgja geta líka kallað fram önnur viðbrögð og fór Árni Steinar ekki varhluta af því á pólitískum ferli sínum.

Eftirminnilegt er þegar honum var meinað að halda hátíðarræðu á Sjómannadaginn af  því að skoðanir hans í sjávarútvegsmálum féllu ekki að geði ráðandi manna á þeim tíma.

Árni Steinar gekk til liðs við Vinstrihreyfinguna grænt framboð 1999 og bauð sig fram í Norðurlandskjördæmi eystra og náði þar kjöri.

Hinar miklu vinsældir hans og málafylgja áttu verulegan þátt í að VG fékk kjörna menn á þing það ár og í upphafi ferils síns. Árni varð einn af forsetum Alþingis og átti stóran þátt í að móta stefnu og ásýnd Vinstri grænna fyrstu árin og vildi gjarna sjá mörg sín brýnustu mál ná sem best fram og verða að veruleika.

Hugur Árna Steinars stóð til áframhaldandi pólitísks starfs, sem hann hafði brennandi áhuga á.

Árni Steinar hafði áður staðið að stofnun Þjóðarflokksins 1987 og skorti örfá atkvæði til þess að hann næði kosningu 1991 fyrir þann flokk í Norðurlandskjördæmi eystra.

Árni Steinar var einlægur andstæðingur inngöngu  Íslands í Evrópusambandið.

Hann tók mjög nærri sér þegar ýmsir félagar hans og samherjar brugðust málstaðnum og forysta og hluti flokksins sem hann hafði barist með studdi umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið vorið 2009.

Þjóðaratkvæði er okkar vopn

Í Morgunblaðinu 6. apríl 1991 birtist stutt viðtal við Árna Steinar Jóhannsson þá efsta manns á lista Þjóðarflokksins í Norðausturkjördæmi. Þar lýsir hann pólískri stefnu sinni og lífssýn sem hann var trúr til hins síðasta:

"Við teljum að sérstaða Íslands sé það mikil að aðild að Evrópusambandinu samrýmist ekki hagsmunum okkar. Við eigum að stunda verslun og viðskipti við aðrar þjóðir á eins hagstæðan hátt og unnt er.

Ég tel að þessi bandalög leiði alltaf til miðstýringar og að árið 2010 til 2030 muni menn slíta sig undan miðstýringarvaldinu í Brussel um alla Evrópu.

Hagræðingin við sameiningu gengur kannski í einn til tvo áratugi en síðan koma stöðnunareinkenni og hnignun sem leiða til þess að bandalög af þessu tagi leysast upp.

Sagði hann það stefnu Þjóðarflokksins að skapa mannlegra samfélag á grundvelli smæðarinnar. "Það er í litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem framsæknustu hugmyndirnar í framleiðslu og hugviti verða til," sagði Árni.

Með græna fingur

Árni Steinar var menntaður í garðyrkju frá Garðyrkjuskólanum að Reykjum og Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn.

Hann var garðyrkjustjóri og síðar umhverfisstjóri Akureyrar frá 1979-1999 og mótaði hið græna, gróskumikla og hlýja yfirbragð sem bærinn nú ber. Síðar vann Árni þrekvirki sem umhverfisstjóri Fjarðarbyggðar 2008-2014 og hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir árangur sinn þar.

Hugsjónir, einlægni og baráttugleði Árna Steinars Jóhannssonar verða okkur hvatning og vegvísir um ókomin ár.

Ég þakka Árna Steinari samferðina og geymi hlýjar og góðar minningar frá mörgum alvarlegum en einnig glaðværum stundum sem við áttum saman og nutum.

Ég sendi Valrós, móður Árna Steinars, og fjölskyldunni allri einlægar samúðarkveðjur. 


Bretland á leið úr ESB

 Bretar gætu verið á leið úr ESB í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2017.

40% Breta vilja úr ESB og 40% vera þar áfram samkvæmt könnun sem YouGov gerði síðustu vikuna í október : nýrr­ar skoðana­könn­un­ar.

Andstaða íbúa Bretlands við áframhaldandi veru í ESB fer vaxandi enda vandséð hvaða erindi Bretland á þar í spilaborg öxulveldanna sem gæti verið að hruni komin. Aðeins 29% Breta telja að þeir hafi mikil áhrif innan ESB en 39% telja þá áhrifalitla.

Sneypuför Camerons til Íslands

Forsætisráðherra Bretlands David Cameron fór sneypuför til Íslands á dögunum. Hann hæddist að Norðmönnum fyrir að vilja standa utan ESB og átti þar einnig við Íslendinga.

Hann dró þar með athygli að vanda sínum sem forsætisráðherra  og tvöfelldni heima fyrir : (.Norðmenn falla ekki fyrir fagurgala Cameron)

Cameron sýndi Íslendingum þann hroka að biðjast ekki afsökunar á hryðjuverkalögunum illræmdu heldur leit á þau sem sjálfssagðan hlut af þeirra hálfu.

Fégræðgi Breta og Icesave

Bretar settu hryðjuverkalög á Íslendinga  haustið 2008 til varnar gráðugum  Bretum. En þeir vildu láta almenning á Íslandi borga fyrir glæpi íslenskra og alþjóðlegra fjárglæframanna sem í skjóli regluverks Evrópusambandsins nýttu sér blinda fégræðgi einfeldninganna í Bretlandi og Hollandi.

ESB umsóknina á að afturkalla refjalaust

Það er hinsvegar dapurt að Íslensk stjórnvöld skulu ekki hafa myndugleik til að afturkalla ESB umsóknina með óyggjandi hætti eins og lofað var.

Eða eins og Tómas Ingi fyrrverrverandi ráðherra og formaður utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins orðaði það: " Lagt hana í dvala niður í skúffu þar sem ESB sinnuð stjórnvöld geta hvenær sem er vakið hana til lífsins á ný og haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist".

Svo virðist sem flestir stjórnmálamenn á þingi bogni í hnjánum gagnvart Evrópusambandinu þegar til alvörunnar kemur.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband