Afturköllun umsóknar að ESB er næsta mál

Framsókn- og Sjálfstæðisflokkur lofuðu í aðdraganda síðustu alþingiskosninga að afturkalla strax og afdráttarlaust  umsókn Íslands að Evrópusambandinu kæmust þeir til valda.

Flestir bjuggust við því að þetta loforð yrði efnt strax á fyrsta þingi nýrrar ríkisstjórnar.

Því miður reyndist ekki nægur dugur til þess. En nú verður ríkisstjórnin að taka á honum stóra sínum. 

Þegar þing kemur saman í lok janúar verður afturköllun ESB -umsóknarinnar að komast á dagskrá þingsins og afgreiðast.

Áramótaávörp forystumanna ríkisstjórnarinnar voru því miður ekki upp á marga fiska í þessum efnum.

Vonandi verða efndir kosningaloforðanna rismeiri á nýju ári og ESB- umsóknin verði afturkölluð.

Gleðilegt nýtt ár

 

 

 


Gleðileg jól

Gleðileg jól. Gleðileg jól hljómar um götur og torg til sjávar og sveita hvar sem fólk hittist.

Hátíð ljósanna er gengin í garð. Við lútum í gleði litlu, nýfæddu barni og sem lagt var í jötu en það var eigi pláss fyrir móðurina með barnið í gistihúsinu. Börnin eru ljósberar mannkynsins, gjöf til framtíðarinnar hvar sem þau fæðast.

Skær og einlæg barnsaugu sem horfa í lifandi jólaljósin eru glitrandi gimsteinar.

En því miður fá ekki öll börn sitt pláss í gisthúsinu.

Á það minnir fæðing frelsarans okkur á.

Kristni og þjóðkirkja

Nokkur umræða hefur verið um stöðu kristni og kirkjustarfs á Íslandi. Hollt er að hafa stöðugt í huga hvar ræturnar liggja og stoðirnar standa hjá íslensku samfélagi.

Um árið 1000 lá við borgarstyrjöld á Íslandi vegna deilna um trú-, kirkju- og þjóðfélagsskipan.  Lá við að þingheimur berðist á Þingvöllum.

En sem betur fór voru þá einnig til staðar menn sem voru vandanum vaxnir.

Landsmenn höfðu skipað sér í  tvær fylkingar sem skipuðu hvor um sig sáttamenn.

Kristnir menn tilnefndu  Síðu-Hall ( Hall Þorsteinsson á Þvottá) en heiðnir menn kölluðu til  Þorgeir Ljósvetningagoða Þorkelsson. Hallur samdi síðan við Þorgeir um að hann Þorgeir skyldi einn segja upp lög sem allir gætu fellt sig við:

„ En nú þykir mér það ráð , að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggja  hafi nokkuð til síns máls og höfum allir ein lög og einn sið.

Það mun vera satt, er við slítum í sundur lögin að vér munum slíta og  friðinn“.

Kvað Þorgeir það lög að menn skyldu taka kristni.

Í stjórnarskrá  Lýðveldisins Íslands er kveðið skýrt á um þjóðkirkjuna og skyldur hins opinbera gagnvart henni:

  Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

 Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla

 


Séra Baldur í Vatnsfirði kvaddur

Séra Baldur Vilhelmsson fyrrverandi prestur og prófastur í Vatnsfirði er allur. Útför hans var gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag. Útfararræða Biskups Íslands, Agnesar Sigurðardóttur, geislaði af hlýju og virðingu fyrir þessum einstæða höfðingja sem þjónaði allan sinn starfsferil sem sóknarprestur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp allt frá árinu 1956. Séra Baldur var einlægur baráttumaður fyrir jafnrétti og kærleika hér í jarðríki. Himnafaðirinn myndi sjá um þá þætti þegar yfir um væri komið.

Ég hafði kynnst séra Baldri í skólastjóratíð minni á Hólum í Hjaltadal er hann kom þar á prestastefnur. En einnig er mér minnistæð heimsókn þeirra félaga, Baldurs, Einars Laxness og séra Sigurjóns Einarssonar en þeir tóku saman góðar ferðarispur um landið og voru aufúsugestir. Síðar var það fastur liður að koma við í Vatnsfirði er ekið var um Vestfirði.

Séra Baldur var fæddur á Hofsósi og unni þeim stað nokkuð til jafns við Vatnsfjörð. Séra Baldur var þjóðsagnarpersóna í lifanda lífi og fjöldi sagna og tilsvara eru eignaðar honum. Sameiginlegt þeim öllum er frumleiki og leiftrandi fyndni en jafnframt þrungnar kærleik til þess samfélags sem hann unni, vann með og þjónaði. 

"Veistu hver er stærsta bylting Íslandssögunnar?" spurði hann mig eitt sinn. Ég hváði. "Jú" sagði hann, "ekkert hafði eins mikla þýðingu fyrir landsmenn eins og gúmmískórnir". Séra Baldri voru þá hugstæðar egghvassar og  grýttar heiðarnar milli bæja, héraða og landshluta en  þær  voru gjarnan mældar í fjölda skópara, hvort sem voru það skinnskór, roðskór eða hveljuskór.

Pólitíkin var séra Baldri ávallt mjög hugleikin en hann var afar róttækur í hugsun og mjög ákveðinn í orðum.

 Ég minnist með þakklæti hvatningarsímtala hans til þingmannsins síns og ógleymanlegrar leiðsagnar um Vatnsfjörð og nágrenni.

Séra Baldur gerði sér ekki alltaf lífsins stundir auðveldar frekar en margir aðrir andans jöfrar.

En hann var sannur vinur vina sinna og hreinskiptinn í allri orðræðu.

"Enginn kemur í hans stað en lögmálinu lútum við öll," segir Kjartan Ólafsson fyrirverandi alþingismaður og félagi Baldurs til margra ára.

Blessuð sé minning um ógleymanlegan mann, höfðingjann séra Baldur Vilhelmsson prófast í Vatnsfirði við Djúp.

Minningargrein um sr. Baldur Vilhelmsson 

 


Hátíðardagskrá Heimssýnar 1. des

Heimssýn óskar landsmönnum heilla á fullveldisdaginn 1. desember.

Dr. Atli Harðarson heimspekingur, fyrrverandi skólameistari Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi og nú lektor við Háskóla Íslands flytur hátíðarræðu.

Dagskráin verður fjölbreytt með tónlist, söng, ávörpum og veitingum.

Hittumst í salnum Snæfelli á Hótel

Sögu í kvöld klukkan 20.00

 

 

 

 

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband